Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar birti pistil á Facebook síðu sinni í morgun þar sem hún spáir fyrir um framtíð ríkisstjórnarinnar. Hún telur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra muni gefa kost á sér til embættis forseta Íslands síðar í vikunni.
„Það mun ekki hafa áhrif á líf ríkisstjórnarinnar sem mun starfa áfram undir forystu Sigurðar Inga. Þórdís Kolbrún verður áfram fjármála og Svandís verður innviðaráðherra,“ skrifar Helga. Þá spáir hún því að Bjarkey Olsen eða Bjarni Jónsson, þingmenn Vinstri grænna, muni taka við matvælaráðuneytinu og vantraustillaga gegn Svandísi Svavarsdóttur því út af borðinu.
„Það er ekkert að fara að gerast í fiskveiðistjórnunarkerfinu eða öðru enda kosningavetur framundan, kosið verður vorið 2025.“
Sjálfstæðis- og framsóknarfólk geti vart dvalið í sama herbergi
„Af hverju er þetta svona?“ spyr Helga Vala og kemur svo sjálf með svarið.
„Jú, Sjallar treysta framsókn alls ekki fyrir fjármálaráðuneytinu. Þrátt fyrir að allir fjölmiðlar hafi eingöngu fjallað um spennuna á milli XD og VG undanfarin misseri þá er það smáræði miðað við djúpgremju XD í garð Framsóknar.“

Helga segir fólk innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins varla geta dvalið í sama herbergi.
„Enda gerir framsókn bara það sem þeim sýnist og lofa milljörðum hægri vinstri, og ef það er ekki samþykkt við ríkisstjórnarborðið þá er bara farið til formannsins sem finnur aur í jöfnunarsjóðnum.“
Þá fullyrðir hún að forystufólk Sjálfstæðisflokksins vilji kosningar árið 2025 en ekki núna, þó stöku ráðherra sé kominn í kosningaham.
„VG vill ekki kosningar núna því þau þurfa að laða að nýtt fólk í framvarðasveitina og Framsókn… tjah… þau hafa verið í kosningabaráttu undanfarna mánuði en formanninum hugnast að verða forsætisráðherra í rúmt ár.“
Þá segist Helga Vala hætt að fussa yfir offramboði kandidata í forsetambættið.
„Ég ætla bara að fylgjast spennt með næstu mánuðum enda annálað kosninganörd.“