Tólf ára drengur lést og tvær tólf ára stúlkur særðust alvarlega í árásinni sem gerð var í Viertolan koulu í Vantaa, norður af Helsinki, í gærmorgun. Lögregla í Finnlandi hefur greint fjölmiðlum nánar frá framgangi rannsóknarinnar í dag.
Lögregla staðfesti í dag að við yfirheyrslur hafi hinn grunaði sagt ástæðu árásarinnar vera einelti sem hann hafi þurft að þola. Þá greindi lögregla frá því að barnið hafi hótað nemendum sem voru á leið í skólann í hverfinu Siltamäki, skömmu eftir að hann hafi skotið samnemendur sína í Viertolan-skólanum og áður en hann var handtekinn.
Hóf nám í skólanum um áramótin
Í frétt YLE segir að barnið sem grunað er um árásina hafi byrjað að stunda nám við skólann um áramótin eftir að hafa þá flutt til Vantaa.
Skólastjórnendur við Viertolan-skólann hafa reynt að halda venjulegu skólastarfi gangandi í dag, þó að skóladagurinn hafi verið styttri en vanalega. Hið sama verður upp á tengingnum á morgun og föstudag. Í fyrstu kennslustundinni í morgun var mínútu þögn til minningar um fórnarlömb árásarinnar.
Rannsaka hvernig barnið komst yfir skammbyssuna
Lögregla í Finnlandi rannsakar nú hvernig barnið komst yfir skammbyssuna sem notuð var í árásinni, en fjölmargir hafa verið yfirheyrðir bæði í gær og í dag.
Lögregla hefur bent á að mikið magn rangra upplýsinga um árásina sé nú í dreifingu á samfélagsmiðlum, sér í lagi TikTok. Hefur sérstaklega verið bent á að ólöglegt sé að dreifa röngum upplýsingum á samfélagsmiðlum í málum sem þessum.