Í tilkynningu á vef Landsbankans segir að bankinn hafi boðið upp á kaup og sölu á norskum, sænskum og dönskum myntum eins lengi og unnt var, en þar sem viðskiptabankar í móttökulandi hafi tekið fyrir skipti á reiðufé frá öðrum löndum sé ljóst að því verður ekki fram haldið.
Notkun fari minnkandi
Í tilkynningunni segir að notkun reiðufjár fari minnkandi í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Aukin notkun á stafrænni tækni í verslun og viðskiptum og heimsfaraldur hafi flýtt þeirri þróun. Varnir gegn peningaþvætti hafi einnig sett gjaldeyrisviðskiptum með reiðufé verulegar skorður og lög og reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti hafi verið hertar, aftur sérstaklega á Norðurlöndunum.
Fólk komi aftur heim með seðlana
Samhliða þessum breytingum hafi eftirspurn viðskiptavina eftir erlendu reiðufé minnkað verulega undanfarin ár.
Það verði sífellt erfiðara að greiða með reiðufé á alþjóðavettvangi. Starfsfólk í útibúum Landsbankans sé í mörgum tilfellum að taka á móti gjaldeyri sem viðskiptavinir gátu ekki notað til að inna af hendi greiðslur á ferðalögum sínum erlendis.
Síðasta vígið fallið
Þegar breytingar Landsbankans taka gildi verða engir norrænir seðlar fáanlegir í viðskiptabönkum hér á landi. Í byrjun árs tilkynnti Íslandsbanki að bankinn hefði þegar hætt að taka við dönskum, norskum og sænskum seðlum.
Arion banki tilkynnti mánuði seinna að frá og með 15. mars 2024 myndi bankinn aðeins taka við og selja erlenda seðla í fjórum myntum; breskum pundum, bandaríkjadollar, pólskum zloty og evrum.