Þórkatla er fasteignafélag sem stofnað var 27. febrúar 2024 sérstaklega til að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun húsnæðis í Grindavík. Soffía Snædís segir nú fjórar vikur liðnar frá því opnað var fyrir umsóknir um uppkaup eigna Grindvíkinga en margir sitji nú eftir með sárt ennið og tapi öllu sínu.
Þegar opnað var fyrir umsóknir um uppkaup var fullyrt að ferlið tæki um tvær til fjórar vikur. En sú sé ekki raunin og ekki heyrist múkk frá Þórkötlu, að sögn Soffíu Snædísar. Framkvæmdastjóri félagsins, Örn Viðar Skúlason, láti ekkert í sér heyra.
„Margir Grindvíkingar hafa nú þegar misst þær eignir sem þeir höfðu gert tilboð í, vegna seinagangs Þórkötlu og þeirra sem þar starfa. Mér finnst þessi framkoma Þórkötlu gagnvart Grindvíkingum með öllu ólíðandi. Það er hræðilegt virðingaleysi gagnvart okkur að miðla ekki upplýsingum, að upplýsa ekki um hvað veldur þessum töfum. Hvernig er nýja tímalínan? Á ég að biðja um framlengingu á mínu tilboði um viku? Tvær vikur? mánuð.“
Soffía Snædís segir marga Grindvíkinga vera að brenna inni með tilboð sín í aðrar eignir. Hún hafi heyrt að rafræn lausn sé að tefja ferlið en ef svo sé verði að bretta upp ermar og boða Grindvíkinga til undirritunar með gamla laginu.
„Girðið ykkur í brók!“ segir Soffía Snædís og bætir við: „Takk Þórkatla og takk Ernir Viðar Skúlason fyrir ekki neitt!“