Ekki komst upp um þjófnaðinn fyrr en starfsmenn peningageymslunnar opnuðu hvelfinguna, seinn part páskadags. Ránið ku hafa verið framið á aðfaranótt páskadags. Geymslan er rekin af, GardaWorld, kanadísku fyrirtæki sem gerir einnig út flota brynvarðra bíla í Kanada og í Bandaríkjunum.
Samkvæmt LA Times er þetta talið stærsta rán í sögu Los Angeles. Þrjátíu milljónir dala samsvara rúmum fjórum milljörðum króna.
Árið 1997 stálu þjófar 18,9 milljónum dala frá annarri peningageymslu í Los Angeles en þeir voru á endanum handteknir. Fyrir tveimur árum rændu þjófar svo verðmætum fyrir allt að hundrað milljónir dala í suðurhluta Kaliforníu. Þeir þjófar hafa ekki fundist.
Í samtali við AP fréttaveituna segir öryggissérfræðingur að ránið sé sláandi. Bygging sem þessi eigi að vera búin minnst tveimur þjófavarnarkerfum, hreyfiskynjurum og þar að auki eigi að vera titringsskynjarar í hvelfingunni sjálfri.
Ekki eigi að vera hægt að ganga inn og út með svona mikla peninga.
Lögreglan í Los Angeles hefur lítið viljað segja um ránið en LA Times hafði eftir heimildarmönnum sínum að þjófarnir hafi komist inn með því að gera gat á þak hússins. Fyrst hafi þeir þó reynt að gera gat á útvegg.
Þá segir miðillinn að eitt þjófavarnarkerfi hafi farið í gang þegar ránið var framið en það hafi ekki verið hannað til að senda skilaboð til lögreglu.