Þetta kemur fram í Facebook-færslu Oddnýjar sem hún birti í gærkvöldi í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti að hún myndi biðjast lausnar sem forsætisráðherra og bjóða sig fram til forseta.
Oddný segir að Vinstri græn vilji ekki sjá Bjarna Benediktsson í forsætisráðuneytinu og Sjálfstæðismenn ekki Sigurð Inga Jóhannsson. Þeir hafa af flestum verið taldir líklegastir til þess að leysa Katrínu af hólmi.
„Lausnin verður að Þórdís Kolbrún verður forsætisráðherra,“ segir Oddný.
Svandísi bjargað undan vantrausti og sérfræðingur fái ráðuneyti hennar
Oddný veðjar á að þá verði Sigurður Ingi fjármálaráðherra. Svandís Svavarsdóttir færist úr matvælaráðuneytinu yfir í hans ráðuneyti, innviðaráðuneytið, og þar með sé boðað vantraust á hana úr sögunni.
Þá telur Oddný að laus staða matvælaráðherra verði fyllt af Bjarna Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Hann varði valinn umfram Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmann Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, vegna menntunar hans og reynslu á sviðinu. Bjarni er fiskifræðingur að mennt og hefur mikla starfsreynslu á sviðinu.
Þá má til gamans geta að faðir hans, Jón Bjarnason, var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2009 til 2011.
Betra að kjósa sem fyrst
Oddný segir þessar bollaleggingar sínar vera hugmynd til að vinna með vilji stjórnarflokkarnir halda út kjörtímabilið.
„En best væri fyrir okkur öll að kjósa sem fyrst.“