„Það eru margar áskoranir eins og fyrrverandi ráðherra kom hér inn á,“ sagði Bjarkey eftir að hún tók við lyklum í morgun.
Spurð hvort hún ætli að halda áfram verkefnum Svandísar í til dæmis sjávarútvegi segir Bjarkey að hún ætli að byrja á því að setjast niður með ráðuneytisstjóra.
„Næstu skref mín eru að setjast niður með ráðuneytisstjóra og því góða fólki sem að hér vinnur og setja mig svolítið inn í málin,“ sagði Bjarkey og að hún væri betur inni í sumum málum en öðrum.
„Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar um eitt eða neitt á þessu stigi málsins. Vinnan er hér í gangi innan ráðuneytisins og hún heldur áfram, svo sjáum við bara hvað setur,“ segir Bjarkey og átti þá við breytingar í sjávarútvegi.
Hún ætli að setja sig frekar og betur inn í þau mál núna.
Spurð um hvalveiðar segir Bjarkey að hún þurfi að átta sig á málinu og hvar það sé statt. Hún sé ekki inn í málinu eins og Svandís var en hún muni nýta daginn í að fræðast um þau mál.
„Það er eins með þetta og hitt. Ég þarf auðvitað aðeins að átta mig á umhverfinu og vita hvar málið er statt akkúrat núna. Ég er ekki inn í því eins og sú sem á undan mér var,“ sagði Bjarkey og að dagurinn færi í það að koma sér inn í málin og hvar þau eru stödd.
Kaflaskil í ríkisstjórn
Svandís Svavarsdóttir, nú innviðaráðherra, afhenti Bjarkeyju lyklana að matvælaráðuneytinu í morgun.
„Þetta eru náttúrulega kaflaskil. Þetta er ráðuneyti sem mér þykir einstaklega vænt um,“ sagði Svandís þegar hún afhenti Bjarkeyju lyklana að matvælaráðuneytinu.

Svandís sagði við það tilefni þetta kaflaskil. Henni þyki afar vænt um ráðuneytið og viðfangsefnin í ráðuneytinu séu henni kær. Verkefnin séu spennandi. Það séu lykilatvinnugreinar landsmanna og mikil spenna í hjörtum landsmanna.
„Það eru miklar meiningar, mikil spenna og mikill eldur í hjörtunum um land allt.“
Hún sagðist ánægð að fá Bjarkeyju til starfa í ráðuneytinu. Það séu spennandi verkefni fram undan og að sem dæmi sé tilbúið frumvarp um lagareldi sem Bjarkey geti mælt fyrir.