Innlent

Hjól rúllaði undan strætó í Hlíðunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Strætisvagninn staðnæmdist fyrir utan Hlíðaskóla eftir að hjól rúllaði undan honum.
Strætisvagninn staðnæmdist fyrir utan Hlíðaskóla eftir að hjól rúllaði undan honum. Vísir

Engan sakaði þegar hjól rúllaði undan strætisvagni á ferð í Hamrahlíð í Reykjavík í kvöld. Hjólið rúllaði niður götuna og staðnæmdist á hringtorgi í Lönguhlíð. Farþegi segir bílstjóra, farþegum og öðrum vegfarendum hafa verið stefnt í hættu.

Leið 13 var á leið vestur Hamrahlíð þegar hjól bílstjóramegin losnaði og rúllaði undan vagninum um klukkan sjö í kvöld, að sögn Ingunnar Jónsdóttur, eins farþeganna sem var um borð. Vagninn stöðvaðist fyrir utan Hlíðaskóla en hjólið rúllaði niður á hringtorgið sem er á gatnamótum Hamrahlíðar, Lönguhlíðar og Eskihlíðar.

Ingunn segir að vagninn hafi ekki verið á mikilli ferð þegar hjólið losnaði enda sé hámarkshraði í Hamrahlíð þrjátíu kílómetrar á klukkustund. Hjólið segir hún ekki hafa rekist á neitt áður en það rúllaði á endanum á hliðina.

Hjólið á hringtorginu við vesturenda Hamrahlíðar.Ingunn Jónsdóttir

Allir farþegar þurftu að yfirgefa vagninn eftir óhappið og segir Ingunn að bílstjórinn hafi brugðist vel við þó að hann hafi verið í nokkru uppnámi yfir því sem gerðist. Hann hafi sagst upplifa fálæti frá Strætó sem hann hafi látið vita að eitthvað bjátaði á áður en dekkið sagði skilið við vagninn.

Ingunn segir greinilega einhverju ábótavant í viðhaldi hjá Strætó þrátt fyrir að farþegagjöld hafi nýlega verið hækkuð. Bílstjóra, farþegum og öðrum í umferðinni hafi verið stefnt í mikla hættu.

„Það er leitt að sjá hvernig Strætó er haldið niðri af stjórnmálamönnum og stjórn Strætó. Við eigum skilið að betur sé staðið að almenningssamgöngum,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×