Í tilkynningu segir að gengið hafi verið frá kaupunum sem rafrænum hætti í samvinnu við Ísland.is. Ferlið sem hefur verið í þróun að undanförnu hjá Ísland.is felur í sér rafrænan kaupsamning, rafrænar undirskriftir og í fyrsta skipti á Íslandi rafræna þinglýsingu kaupsamninga í fasteignaviðskiptum.
Markmið Þórkötlu er að klára afgreiðslu þorra þeirra umsókna sem þegar hafa borist í þessum mánuði. Alls liggja nú fyrir 675 umsóknir hjá félaginu en hægt er að sækja um út þetta ár. Í tilkynningu segir að hluti umsókna muni þarfnast sérstakrar skoðunar og að það muni taka aðeins lengri tíma.
„Stór hluti umsókna er tiltölulega aðgengilegur og við teljum okkur geta unnið það hratt. Við segjum að við ætlum að komast langt með allar umsóknir sem ekki stoppa á einhverju í aprílmánuði. Ég vona að við getum staðið við það,“ sagði Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu fasteignafélags, í fréttum á Bylgjunni síðdegis.
Þegar stjórn Þórkötlu hefur samþykkt umsókn fær fólk senda tilkynningu um að þess bíði skjal til rafrænnar undirritunar. Örn Viðar segir að enginn þurfi að drífa sig og fólk geti lagst yfir kaupsamninginn í rólegheitum. Þegar seljendur og kaupandi hafa skrifað undir fer samningurinn sjálfkrafa í rafræna þinglýsingu.
Örn Viðar segir að þegar gengið hafi verið frá kaupsamningi og þinglýsingu taki það í mesta lagi fjóra til fimma daga þar til seljendur fá greidd 95 prósent af kaupverði eignar. Afhending eignar fer fram einum til þremur mánuðum eftir kaupsamingin og afsalsgreiðsla á fimm prósentum kaupverðrsins mánuði eftir afhendingu.
Fréttin hefur verið uppfærð með tilvitnunum í framkvæmdastjóra Þórkötlu.