Bankasýsla ríkisins ákvað fyrir helgi að skipta út öllu bankaráði Landsbankans vegna óánægju með hvernig staðið var að kauptilboði í tryggingafélaginu TM.
Fjárlaganefnd óskaði fyrir tæpum mánuði eftir skýringum frá fjármálaráðuneytinu um samskipti ráðuneytisins og Bankasýslunnar í málinu.
Björn Leví Gunnarsson Pírati og nefndarmaður er svartsýnn á að svör berist þaðan.
„Það kæmi mér á óvart. Það verður svona hummað fram að sér að svara. Ef að svarið kemur að lokum verður það eins fátæklegt og hægt er að hafa það,“ segir Björn sem segir það ekki eðlilega stjórnsýslu.
Fyrrverandi fjármálaráðherra hafi átt fund með bankastjóra
Tryggvi Pálsson formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins upplýsti hins vegar á Sprengisandi í gær um samskipti fyrrverandi fjármálaráðherra og Landsbankans í aðdraganda sölunnar.
„Ákvörðunin stóra er 15. mars þegar Bankaráðið ákveður að fara í skuldbindandi tilboð. Það er ekkert símtal, ekkert tölvuskeyti, ekkert bréf sem sagði um þetta þannig að við gátum ekkert upplýst ráðherra um það. En ráðherra var búin að segja sína skoðun mjög skýrt mánuði áður og meira að segja funda með yfirstjórnendum Landsbankans þar sem þetta kom líka fram. Daginn eftir fundinn þá var bankaráðsfundur. Þannig að Landsbankinn mátti alveg vita að baklandið var ekki á þessari skoðun,“ sagði Tryggvi á Sprengisandi í gær.
Þá kom eftirfarandi fram:
„Mér skilst að það hafi verið fundur ráðherrans og bankastjóra og lykilstarfsmanns. En ekki við bankaráð. Að sjálfsögðu hafi verið sagt frá því samtali á bankaráðsfundi daginn eftir,“ sagði Tryggvi í þættinum Sprengisandi í gær.

Ekki kom fram í þættinum hvort að ráðherrann hafi komið þessum áhyggjum sínum á framfæri við Bankasýsluna eins og hefði mátt búast við samkvæmt eigendastefnu ríkisins þar sem til Bankasýslunnar var upphaflega stofnað til að hafa armslengdarsjónarmið. Björn segir erfitt að meta hvar sannleikurinn liggur í málinu.
„Það er ekki komin nein heildarmynd á þetta ennþá. Samkvæmt lögum um stjórnarráðið þá á að bóka alla svona fundi ráðherra í dagbók ráðherra og í raun hvað þar kom fram ef það varðar einhverja ákvörðunartöku. Ég veit ekki til þess að það hafi verið,“ segir Björn Leví.