Quang Le situr í gæsluvarðhaldi grunaður um mansal og fleiri brot í gegnum fyrirtæki og veitingastaði sína. Quang Le breytti nafni sínu í Davíð Viðarsson í upphafi síðasta árs en nafnabreytingin og nafnavalið var ekki jafn handahófskennt og mætti halda.
Ekki maki Davíðs heldur Quangs
Árið 2004 kynntist Quang Le manni að nafni Davíð Viðarsson sem sagði sögu sína í viðtali á Vísi í dag. Vinskapur hafi myndast milli þeirra og Quang Le sagst þekkja konu í Víetnam sem væri tilvalin eiginkona fyrir Davíð. Davíð hafi flogið til Víetnam og gifst konunni svo hún gæti flutt til Íslands.
Davíð sneri aftur til Íslands og segir að konan hafi átt að koma nokkrum vikum síðar. Þá hafi Quang Le tilkynnt honum að konan yrði ekki eiginkona hans heldur myndi hún búa með sér. Davíð segist hafa krafist skilnaðar en Quang Le hafi neitað og haft í hótunum við sig. Skilnaðurinn gekk loks í gegn fimm árum síðar. Þá hafði Quang Le eignast tvö börn með konunni sem bæði eru skráð börn Davíðs þar sem þau voru í hjónabandi þegar þau fæddust.
Davíð ákvað að loka á öll samskipti við Quang Le og konuna en í fyrra hafi hann loks hugað að því að að leiðrétta faðernið enda gætu börnin, sem hann hefur aldrei hitt og á ekkert í, gert kröfu í eignir hans. Hann hafi haft samband við Quang Le, hann brugðist vel við í fyrstu, sagst ætla að hjálpa til með pappírsvinnuna en ekki upplýst Davíð um nýlega nafnabreytingu. Davíð fréttir af henni í fjölmiðlum. Þegar þeir hafi loks hist í desember hafi Quang Le ekki gefið neina skýringu á nafnabreytingunni. Velvilji með að leiðrétta faðernið hafi virst lítill sem enginn.
Mannerfðafræðileg rannsókn sker úr um faðerni
Unnur Ásta Bergsteinsdóttir, lögmaður með reynslu af faðernismálum hjá Magna Lögmönnum, segir dómsmál einu lausnina í svona tilvikum.
„Ef það er hjónaband til staðar milli konu og manns, barn fæðist og báðir aðilar vita að þetta er ekki rétt faðerni, þarf engu síður að höfða dómsmál til véfengingar á faðerninu og fá því breytt. Yfirleitt er gerð mannerfðafræðileg rannsókn strax í kjölfarið sem er þá aðalsönnunargagnið í málinu,“ segir Unnur.
Með framfærsluskyldu
Það komi fyrir að konur eignist börn með öðrum en eiginmanni þeirra, til dæmis þegar skilnaðir dragast á langinn. Mikilvægt sé að leiðrétta skráninguna.
„Í rauninni eru þessi börn samkvæmt lögum hans skylduerfingjar og myndu þá taka arf eftir hann eftir hans dag. Sömuleiðis er hann með framfærsluskyldu gagnvart þeim á grundvelli barnalaga,“ segir Unnur.