Innlent

Land­ris stöðugt og hraunbreiðan sex fer­kíló­metrar

Árni Sæberg skrifar
Hraunbreiðan hefur breitt hressilega úr sér.
Hraunbreiðan hefur breitt hressilega úr sér. Vísir/Vilhelm

Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða. Flatarmál hraunbreiðunnar á svæðinu er nú 6,15 ferkílómetrar og rúmmál hennar 33,2 milljón rúmmetrar.

Í uppfærðri færslu á vef Veðurstofu Íslands segir að elgosið við Sundhnúksgígaröðina sé stöðugt og gjósi úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraunbreiðan haldi áfram að byggjast upp nærri gígunum en hraun renni einnig í lokuðum rásum um einn kílómetra í suðaustur og virk svæði séu í hraunbreiðunni til móts við Hagafell.

Mældu flatar- og rúmmál

Mánudaginn 15. apríl hafi myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands farið í flug yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður mælingaflugsins sýni að flatarmál hraunbreiðunnar þann 15. apríl hafi verið 6,15 ferkílómetrar og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón rúmmetrar. 

Útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar má sjá á kortinu hér að neðan.

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.Veðurstofa Íslands

Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. apríl hafi verið metið 3,2 ± 0,2 rúmmetrar á sekúndu. Það sé lítil breyting miðað við meðalhraunflæði tímabilið frá 3. til 8. apríl sem hafi verið metið 3,6 ± 0,7 rúmmetrar á sekúndu. 

Kvikan skiptist til helminga

Þá segir að landris í Svartsengi haldi áfram á stöðugum hraða. Það bendi til þess að um það bil helmingur af kvikunni sem kemur af dýpi sé að safnast fyrir í kvikuhólfinu en hinn helmingur að flæða upp á yfirborð i Sundhnúksgígaröðinni. 

Þá segir að áfram sé hætta á gasmengun frá eldgosinu sem geti valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum. Fólki á svæðinu er bent á að fylgjast með á Loftgæðum.is og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×