Þjófarnir komust á brott með tugi milljóna króna úr peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar. Aðgerðin var þaulskipulögð og eins og sjá má á myndbandi af verknaðinum virðast þjófarnir vel undirbúnir. Þetta tók þá rétt rúma hálfa mínútu og lögreglan er engu nær um hver var að verki.
Hingað til hefur þeim tekist að fela slóð sína. Þeir naga sig þó eflaust örlítið í handarbakið. Ástæðan er sú að þeir skildu eftir poka í bílnum stútfullan af seðlum. Pokinn leit öðruvísi út en töskurnar enda ekki fullur af peningum úr spilakassasal heldur hraðbanka.
Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson, rannsóknarlögreglufulltrúi, gat ekki tjáð sig um þann hluta þegar fréttastofa ræddi við hann í gær.
Varð einhver taska eftir í bílnum?
„Ég tjái mig ekki um það,“ segir Aðalsteinn.

Þannig er möguleiki á að þjófarnir hafi ekki haft á brott með sér alla fjármunina sem voru í bílnum?
„Rannsóknarhagsmunir krefjast þess að ég tjái mig ekki um það.“
Mörgum spurning er ósvarað og ekki síst eftir birtingu myndbandsins. Fréttastofa hefur leitað viðbragða hjá forsvarsmönnum Öryggismiðstöðvarinnar án árangurs. Hvers vegna var svona auðvelt að brjótast inn í bíl með tugi milljóna í reiðufé? Hvers vegna voru töskurnar lausar í bílnum? Er eðlilegt að bíll með svo mikil verðmæti sé mannlaus? Og hvernig má það vera að ekkert þjófavarnarkerfi fór í gang til að vekja athygli á þjófnaðinum. Sjö mínútur liðu frá því þjófarnir brunuðu í burtu með peningana og þar til upp komst um þjófnaðinn.