Innlent

Rann­sókn á andlátinu enn á frum­stigi

Jón Þór Stefánsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins. Vísir/Vilhelm

Rannsókn á andláti manns á fertugsaldri í sumarhúsi í Árnessýslu er enn á algjöru frumstigi. Greint var frá því síðdegis í fær að fjórir hefði verið handteknir vegna andlátsins sem er rannsakað sem manndráp.

Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að forvinna fyrir rannsóknina standi enn yfir. Hann segir lögregluna vinna að því að ná utan um málið.

Hann gat ekki tjáð sig frekar um rannsóknina að svo stöddu. Þó megi vænta tilkynningar eftir hádegi. 

Lögreglunni á Suðurlandi barst um tvöleytið í gær tilkynning um meðvitundarlausan mann í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang.

Fram hefur komið að Lögreglan á Suðurlandi fari fyrir rannsókninni, en sé með stuðning frá tæknideild lögreglu.

Veistu meira um málið? Hvar atvikið átti sér stað? Hverjir eiga í hlut? Ertu með myndir af svæðinu? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×