Innlent

Vilja fjóra karl­menn í gæslu­varð­hald

Jón Þór Stefánsson skrifar
Samkvæmt heimildum fréttastofu var andlátið í sumarbústaðabyggðinni við Kiðjaberg.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var andlátið í sumarbústaðabyggðinni við Kiðjaberg. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi óskaði í dag eftir því að fjórir karlmenn yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á andláti manns á fertugsaldri í sumarbústaðabyggð í Árnessýslu. Úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands er að vænta síðar í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar. Þar segir að hinn látni og mennirnir fjórir sem eru í gæsluvarðhaldi séu af erlendum uppruna.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.Vísir/Arnar

„Allir sakborningarnir voru handteknir á vettvangi skömmu eftir komu viðbragðsaðila en grunur vaknaði þegar á vettvangi um að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að rannsókn lögreglu miði að því að upplýsa um atburðarás á vettvangi og með hvaða hætti andlát mannsins bar að.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er umrædd sumarbústaðabyggð í Kiðjabergi.

Síðdegis í gær var greint frá því að um tvöleytið í gær hefði lögreglunni borist tilkynning um meðvitundarlausan mann í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang.

Fram hefur komið að Lögreglan á Suðurlandi fari fyrir rannsókninni, en sé með stuðning frá tæknideild lögreglu.


Tengdar fréttir

Maður á fertugsaldri talinn hafa verið myrtur í sumarhúsi

Grunur er um manndráp í sumarhúsi í Árnessýslu. Fjórir hafa verið handteknir á grundvelli rannsóknarhagsmuna að sögn lögreglunnar. Rannsókn málsins er á frumstigi og segir lögreglan að því verði ekki veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×