Innlent

Grunur um mann­dráp á Akur­eyri

Árni Sæberg skrifar
Konan fannst látin í húsi í Naustahverfinu á Akureyri.
Konan fannst látin í húsi í Naustahverfinu á Akureyri. Já.is

Lögreglan á Akureyri hefur til rannsóknar andlát konu sem fannst látin í íbúðarhúsi á Akureyri í nótt. Einn hefur verið verið handtekinn vegna málsins.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að grunur sé um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. 

Þar segir að lögregla hafi verið kölluð til klukkan 04:30 í nótt. Fyrstu lögreglumönnum sem komu á vettvang hafi verið vísað á meðvitundarlausa konu í íbúðinni og endurlífgunartilraunir hafist þegar í stað. Læknir og sjúkraflutningamenn hafi einnig komið á vettvang en tilraunir til endurlífgunar hafi ekki borið árangur og konan verið úrskurðuð látin á vettvangi.

Einn handtekinn

Í íbúðinni hafi verið annar einstaklingur og hann hafi verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins og sé með réttarstöðu sakbornings. Krafa um gæsluvarðhald yfir honum verði lögð fram fyrir dómi í dag. Rannsókn málsins sé í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sem njóti aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og mikil vinna framundan. Vegna rannsóknarhagsmuna sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við öllum ábendingum og myndum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×