Orri Steinn og markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson byrjuðu báðir á bekknum hjá FCK sem er ríkjandi meistari. Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði AGF og lék allan leikinn.
Staðan var markalaus í hálfleik en snemma í síðari hálfleik kom Orri Steinn inn fyrir Andreas Cornelius sem hafði meiðst. Það tók Orra Stein ekki langan tíma að setja mark sitt á leikinn en aðeins sex mínútum eftir að hann hafði komið inn af bekknum hafði íslenski framherjinn skilað knettinum í netið.
Upphaflega fór flaggið á loft en eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði markið kom í ljós að ekki var um rangstöð að ræða og markið stóð. Gestirnir jöfnuðu metin þegar tæpar tuttugu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma en á 85. mínútu kom Orri Steinn heimamönnum yfir á nýjan leik eftir undirbúning Elias Achouri.
Það var svo í uppbótartíma sem Orri Steinn fullkomnaði þrennu sína eftir sendingu Mohamed Elyounoussi. Sem betur fer fyrir FCK þar sem gestirnir minnkuðu muninn skömmu síðar og lokamínútur leiksins æsispennandi. Leiktíminn fór vel yfir 100 mínútur en staðan var enn 3-2 FCK í vil þegar flautað var til leiksloka.
🎩🪄🇮🇸#fcklive #sldk pic.twitter.com/hQ4thyXGm0
— F.C. København (@FCKobenhavn) April 28, 2024
Sigurinn þýðir að FCK er nú með 52 stig, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Bröndby þegar bæði lið eiga fimm leiki eftir.
