Innlent

Gæti dregið til tíðinda á næstu klukku­stundum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur útskýrði stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur útskýrði stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Arnar

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur klukkustundaspursmál í minnsta lagi og dagaspursmál í mesta lagi í að það fari að draga til tíðinda vegna kvikusöfnunnar undir Svartsengi.

Þetta kom fram í viðtali við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég held að það sé líklegt að það fari eitthvað að gerast, en spurningin er: Hvað gerist? Eins og staðan er í dag erum við með kviku sem streymir úr dýpri kvikugeymslu sem er á átta til tólf kílómetra dýpi. Hún er mjög stór, það er mikil kvika í henni sem streymir upp eftir gosrásinni. Hluti af henni fer alla leið uppá yfirborðið en hluti hefur verið að fara í þetta grynnra í geymsluhólf sem er undir Svartsengi. Núna er það orðið fullt og þá er spurningin: Hvernig er áframhaldið?“

Þorvaldur segir einn möguleika vera að kvikan sem áður fór í grynnra hólfið fari og bætist við það sem komi nú þegar á yfirborðið á meðan myndi það sem er í hólfinu kólna.

Annar möguleiki sé að kvikan fari af stað úr hólfinu, en flæði upp úr sömu sprungu. Það myndi þýða að gosflæðið myndi aukast enn meira en í fyrri möguleikanum.

Hvenær gerist þetta? Hvenær haldið þið að eitthvað gerist?

„Þetta er komið á það stig að maður býst við því að þetta gerist bara þá og þegar. Ég myndi segja að þetta geti verið klukkustundir, og ekki mikið meira en dagar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×