Innlent

Barn á Akur­eyri greindist með kíg­hósta

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Barnið sem greindist er í Brekkuskóla.
Barnið sem greindist er í Brekkuskóla. vísir

Kíghósti hefur greinst í barni í Brekkuskóla á Akureyri, að því er fram kemur í tilkynningu Landlæknis. Minnt er á mikilvægi bólusetninga gegn sjúkdómum sem kíghósta, en þátttaka barna í bólusetningum hefur dregist saman síðustu ár.

„Þegar smit er í gangi er ástæða til fyrir einstaklinga með öndunarfæraeinkenni að fara varlega í umgengni við ung börn, barnshafandi konur og ónæmisbælda einstaklinga,“ segir í tilkynningunni.

Fyrr í apríl greindust tveir fullorðnir einstaklingar með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum Landlæknis hefur kíghósti greinst af og til á Íslandi og gjarnan komið hrinur á 3-5 ára fresti. Kíghósti greindist síðast á Íslandi árið 2019. Útbreiðsla sjúkdómsins í heiminum hefur farið vaxandi síðustu 20 árin og er sjúkdómurinn landlægur í sumum löndum.

Greint var frá því í síðustu viku að þátttaka barna í bólusetninga hafi dregist saman síðustu ár og sérstaklega í kringum heimsfaraldur Covid. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir yfirlæknir bólusetninga segir ákveðnar bólusetningar hafa verið settar á bið þá vegna annarra forgangsverkefna. Enn sé verið að vinna það upp.

„Ekki er talin ástæða til frekari sóttvarnaraðgerða en að fylgjast með og huga að bólusetningum,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×