Eldflaug af gerðinni Long March 5 flutti geimfarið á braut um jörðu í morgun.
Lendingarfarið heitir Chang‘e-6 og á það að lenda aftur á jörðinni með tvö kíló af tunglryki eftir 53 daga, gangi allt eftir. Takist það, verður þetta í fyrsta sinn sem sýnir verður tekið á fjærhlið tunglsins.
Fjarhlið tunglsins snýr aldrei að jörðinni. Hún er því eðli málsins samkvæmt mun verr þekkt en hin hliðin, sem snýr að jörðinni. Á fjarhliðinni er talið að finna megi eldri jarðveg en finnst á nærhliðinni og vonast vísindamenn til þess að sýnið geti varpað frekara ljósi á það hvernig tunglið varð til.
Chang‘e-6 er í raun fjögur mismunandi geimför. Það er geimfar, sem flytja á alla stæðuna á braut um tunglið. Síðan mun lendingarfar lenda á tunglinu bora tvo metra undir yfirborð tunglsins og taka þaðan tvö kíló af tunglryki. Sýnið verður svo fært um borð í þriðja geimfarið sem á að flytja það aftur á braut um tunglið og um borð í fyrsta geimfarið.
Þar verður sýnið svo fært um borð í fjórða farið, lendingarfar sem á að bera sýnið til lendingar í innri Mongólíu.
Í frétt SpaceNews segir að Chang‘e 6 byggi á Chang‘e 5 sem sótt sýni til nærhliðar tunglsins árið 2020.
Kínverjar hafa lagt mikið púður í rannsóknarstarf í geimnum á undanförnum árum. Þeir hafa meðal annars byggt eigin geimstöð, þar sem þrír geimfarar eru nú. Þá stefna Kínverjar á að lenda mönnum á tunglinu fyrir árið 2030.
Til stendur að senda tvö önnur ómönnuð geimför til tunglsins á þessum áratug. Chang‘e-7 á að leita að vatni á Suðurpól tunglsins og Chang‘e-8 er ætlað að kanna möguleika á því að koma upp mannaðri bækistöð á tunglinu.
Ákveðið kapphlaup hefur myndast um suðurpól tunglsins, þar sem talið er að finna megi mikið magn íss í gígum á tunglinu. Það vatn væri hægt að drekka og nota til eldsneytisframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.
Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra vinna einnig hörðum höndum að því að senda menn til tunglsins.