Enski boltinn

„Síðasti naglinn í kistu Ten Hag“

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag hefur verið knattspyrnustjóri Manchester United síðustu tvö ár.
Erik ten Hag hefur verið knattspyrnustjóri Manchester United síðustu tvö ár. Getty/Sebastian Frej

Erik ten Hag stýrir Manchester United í bikarúrslitaleik gegn Manchester City 25. maí en það gæti jafnframt orðið síðasti leikurinn hans sem stjóri United.

Sparkspekingar hafa að minnsta kosti ekki sparað stóru orðin eftir 4-0 skellinn sem United fékk gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Liðið hefur nú tapað 13 leikjum í deildinni í vetur og aldrei tapað fleirum frá því að úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992.

United er auk þess í 8. sæti, eftir að hafa aldrei endað neðar en í 7. sæti úrvalsdeildarinnar, og markatala liðsins er í mínus þegar liðið á aðeins þrjá deildarleiki eftir.

„Manni leið eins og að þetta væri síðasti naglinn í kistuna,“ sagði Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, við Premier League Productions.

„Það virtist skorta þekkingu hjá liðinu, og það skorti vinnusemi sem hljóta að vera mestu vonbrigðin,“ sagði Scholes sem núna efast um að Ten Hag fái að halda áfram, en Hollendingurinn er að ljúka sínu öðru ári með United.

„Ég hef haldið að hann fengi annað ár og gæti unnið fyrir félag sem hefur róast aðeins með innkomu nýrra eigenda, en tilfinningin er önnur núna,“ sagði Scholes.

Sjálfur telur Ten Hag að hann hafi enn nóg fram að færa: „Ég er klárlega rétti stjórinn til að rétta gengið við. Ef að réttu leikmennirnir geta spilað þá erum við með góðan hóp. En þegar það vantar nánast alla varnarlínuna okkar þá lendum við í vandræðum.“

Michael Owen, sem lék með United á árunum 2009-12, vill hins vegar að eigendur United taki einfaldlega strax í taumana og láti Ten Hag fara.

„Það má einfaldlega ekki gerast að hann stýri liðinu áfram á næstu leiktíð. Ég velti fyrir mér, því það er svo margt í húfi þó það séu bara fjórir leikir eftir af tímabilinu, hvort að stjórnin þurfi ekki að gera eitthvað hérna og vera róttæk í því,“ sagði Owen.

United á eftir deildarleiki við Arsenal, Newcastle og Brighton, í baráttu sinni um Evrópusæti, en gæti einnig tryggt sig inn í Evrópudeildina með sigri á City í bikarúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×