Bayern fagnaði þýska meistaratitlinum um síðustu helgi og hafði ekki tapað leik í vetur í þýsku deildinni né bikarnum, en Wolfsburg hefur hins vegar gríðarlega reynslu af því að vinna bikarúrslitaleiki eins og fyrr segir.
Og það var líka Wolfsburg sem spilaði af mun meiri krafti í fyrri hálfleiknum, fullt sjálfstrausts, og í honum komu bæði mörkin.
Jule Brand skoraði fyrra markið með skoti utan teigs á 14. mínútu, en Maria Grohs gerði slæm mistök þegar hún leyfði boltanum að skoppa yfir sig í marki Bayern. Dominique Janssen skoraði svo seinna markið með skalla eftir hornspyrnu, fimm mínútum fyrir hálfleik.

Sveindís Jane Jónsdóttir er nýkomin á ferðina eftir meiðsli en kom inn á hjá Wolfsburg á 68. mínútu. Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern, stóð vaktina vel í vörn liðsins allan leikinn en liðsfélagar hennar náðu lítið að skapa fram á við. Þegar það tókst varði Merle Frohms frábærlega í marki Wolfsburg.
Draumur Bayern um að vinna tvöfalt varð því að engu en Wolfsburg vann tíunda bikarmeistaratitil sinn í röð, og Alexandra Popp vann sinn ellefta bikarmeistaratitil.