Óskar Hrafn hafi viljað ráða sinn eigin aðstoðarmann þegar hann tók við stjórnartaumunum en ekki fengið heimild til þess. Félagið valdi þess í stað þjálfarateymið sem samanstóð af aðstoðarþjálfaranum Sancheev Manoharan, markvarðaþjálfaranum Kamil Rylka og Paul André Farstad sem starfaði sem leikgreinandi.
TV2 kveðst hafa heimildir fyrir því að ósætti um starfsteymið hafi orðið til þess að Óskar sagði upp störfum í gær. Óskari hafi fundist hann ekki fá þann stuðning sem hann þyrfti til að ná árangri í starfi.
Óskar hafi beðið íþróttastjórann Eirik Oppedal að fjarlægja aðstoðarmanninn Manoharan úr starfi aðstoðarþjálfara, ellegar hann segði upp störfum. Haugesund hafi neitað beiðni Óskars og hann ekki séð aðra leið færa en að segja starfi sínu lausu.
Manoharan, Farstad og Rylka hafa tekið tímabundið við þjálfun liðsins á meðan Haugesund leitar arftaka Óskars í starfi, samkvæmt tilkynningu félagsins í morgun.
Christoffer Falkeid, formaður FK Haugesund, vildi lítið tjá sig um málið og sagði Óskar þurfa að greina frá ástæðum uppsagnarinnar sjálfur.
Óskar Hrafn vildi sjálfur ekki tjá sig um málið við Vísi þegar innt var eftir viðbrögðum í morgunsárið.