Frá þessu segir í tilkynningu frá Solid Clouds, en Starborne Frontiers er hlutverkaleikur þar sem spilarinn setur sig í hlutverk flotaforingja sem safnar og uppfærir flota til að kanna, skipuleggja og sigra heiminn sem er fullur af spennu og bardögum ólíkra stríðandi fylkinga.
„Verðlaunin eru veitt af Norrænu tölvuleikjastofnuninni (e. Nordic Game Institute) en að henni standa tölvuleikjasambönd Norðurlanda, þar á meðal Samtök íslenskra leikjafyrirtækja (IGI). Fleiri hundruð leikir voru tilnefndir og fimm sem komust í úrslit, þar á meðal Starborne Frontiers. Verðlaunin verða veitt á Norrænu leikjaráðstefnunni (Nordic Game conference) í Malmö, Svíþjóð, 23. maí næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Stefáni Gunnarssyni forstjóra Solid Clouds að það sé ánægjulegt að sjá Starborne Frontiers fá viðurkenningu frá jafn virtri stofnun en leikjafyrirtæki Norðurlanda standi í fremstu röð í heiminum. „Þessi tilnefning gefur Solid Clouds teyminu byr í seglinn og við bíðum spennt eftir niðurstöðu dómnefndar.”