Innlent

Óska eftir til­nefningum um Reyk­víking ársins

Lovísa Arnardóttir skrifar
Reykvíkingur ársins í fyrra var Mikael Marinó Rivera grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi. Á myndinni er hann kampakátur við opnun Elliðaánna síðasta sumar. 
Reykvíkingur ársins í fyrra var Mikael Marinó Rivera grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi. Á myndinni er hann kampakátur við opnun Elliðaánna síðasta sumar.  Vísir/Sigurjón

Borgarstjórinn í Reykjavík óskar í fjórtánda sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar í borgarsamfélaginu. Ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins.

Í tilkynningu frá borginni segir að til greina komi aðeins einstaklingar sem hafi verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavík og íbúum borgarinnar til góða á einhvern hátt.

„Þetta gæti verið einhver sem hefur haft jákvæð áhrif á borgarlífið, sýnt nærumhverfinu alúð eða gert mikið gagn í borginni á undanförnum árum með einhverjum hætti,“ segir í tilkynningunni og að hann, hún eða hán sem hlýtur viðurkenningu sem Reykvíkingur ársins muni opna Elliðaárnar með því að renna fyrir laxi í ánni ásamt borgarstjóra, í boði Stangveiðifélags Reykjavíkur sem hefur árnar á leigu.

Frestur til að senda inn tilnefningar rennur út mánudaginn 10. júní 2024. Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.

Virkjaði nemendur á þeirra eigin áhugasviði

Reykvíkingur ársins í fyrra var Mikael Marinó Rivera grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi fyrir að virkja nemendur sem finna ekki sitt áhugasvið í hefðbundnum námsgreinum í skólanum. Hann bauð meðal annars upp á valáfanga í fluguveiði, Lord of the Rings, þar sem kafað er dýpra í hugarheim Tolkiens, hlaðvarp þar sem nemendur læra að gera hlaðvörp, allt frá handritagerð til birtingar á efni og Ökuskóla Mikaels, sem er undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám.

Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is.


Tengdar fréttir

Reyk­víkingur ársins Mikael Marinó opnaði Elliða­árnar í morgun

Mikael Marinó Rivera, grunn­skóla­kennari í Rima­skóla í Grafar­vogi er Reyk­víkingur ársins 2023. Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri til­kynnti valið í morgun við opnun Elliða­ánna en þetta er í þrettánda sinn sem Reyk­víkingur ársins er valinn.

„Fallegt samfélagslegt verkefni sem að gerir borgina betri“

Reykvíkingar ársins 2022 segja það hafa komið á óvart að þau hafi orðið fyrir valinu en þau komu á fót fyrsta íslenska frískápnum. Formaður borgarráðs segir þau vel að nafnsbótinni komin þar sem þau hafa fengið aðra Reykvíkinga með sér í lið til að bæta samfélagið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×