Heildarfjöldi þeirra eigna sem geta fallið undir úrræðið er um 900.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að Þórkatla hafi greitt 22,2 milljarða króna í kaupsamningsgreiðslur og yfirtekið lán hjá sextán lánastofnunum að andvirði 11,4 milljarða króna.
„Þórkatla hefur ákveðið að leigja fasteignir sem félagið hefur keypt í Grindavík, en fyrst um sinn verða fasteignir eingöngu leigðar til fyrri eigenda þeirra. Félagið mun miða leiguverð á íbúðarhúsnæði í Grindavík við markaðsleigu að teknu tilliti til aðstæðna í Grindavík á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.
Leigan út þetta ár nemi 25 prósent af markaðsleigu á Suðurnesjum og muni taka mið af brunabótamati eignanna og verða í kringum 625 krónur á fermetra út árið.
„Það verður því til dæmis hægt að leigja 100 fermetra hús í Grindavík á 62.500 kr. á mánuði. Auk þess greiðir leigutaki hita og rafmagn,“ segir í tilkynningunni en nánari tilhögun á leigu eignanna verði kynnt á næstunni.