Innlent

Treysta sér til þess að vernda þjóð­kirkjuna

Kjartan Kjartansson skrifar
Jón Gnarr stendur utan þjóðkirkjunnar og hefur gengið í gegnum ólík tímabil í persónulegri trú sinni. Hann sagðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að rækja hlutverk forseta gagnvart þjóðkirkju.
Jón Gnarr stendur utan þjóðkirkjunnar og hefur gengið í gegnum ólík tímabil í persónulegri trú sinni. Hann sagðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að rækja hlutverk forseta gagnvart þjóðkirkju. Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir að aðeins tveir frambjóðendur í forsetakappræðum Stöðvar 2 í gærkvöldi segðust berum orðum vera félagar í þjóðkirkjunni lýstu þeir sig allir tilbúna til þess að vernda kirkjuna og eiga við hana gott samstarf.

Kveðið er á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna í stjórnarskrá Íslands. Frambjóðendurnir sex sem tóku þátt í kappræðunum í gærkvöldi voru spurðir út í afstöðu sína til kirkjunnar.

Tveir þeirra tóku sérstaklega fram að þeir væru í kirkjunni, Halla Hrund Logadóttir og Halla Tómasdóttir, og tveir að þeir væru ekki félagar, þau Katrín Jakobsdóttir og Jón Gnarr. Baldur Þórhallsson sagðist alinn upp á kristnu heimili og Arnar Þór Jónsson að Íslendingar hefðu margt til kristninnar að sækja um gildismat sitt og menningu.

Katrín sagðist nokkuð ánægð með ákvæði stjórnarskrárinnar um að það skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og trúfrelsi. Hún væri alin upp í fjölskyldu utan þjóðkirkjunnar og hún væri ekki sjálf í kirkjunni. Hún hafi unnið vel með kirkjunni í sínum fyrri störfum og teldi sig geta gert það áfram sem forseti.

„Ég á mína trú og mæti í messu reglulega og sæki þar sálarró,“ sagði Katrín um eigin trú.

Arnar Þór sagði að þó að kveðið væri á um sérstaka vernd kirkjunnar í stjórnarskrá bæri forseta einnig að standa vörð um trúfrelsi í landinu sem væru einnig mikilvæg mannréttindi.

„Þjóðkirkjan og kristindómurinn hefur haft sterka stöðu innan íslenskrar menningar og mótað siðinn og lögin hér í þúsund ár, rúmlega það. Við höfum margt þangað að sækja hvað varðar okkar gildismat og annað slíkt,“ sagði hann og benti á bók sem fjallaði um hvernig kristið siðgæðið hefði sigrað heiminn.

Ætlar að umvefja alla þjóðina óháð trú

Halla Tómasdóttir sagðist vera í þjóðkirkjunni og styðja trúfrelsi.

„Ég held að trú skipti okkur máli. Hver þarf að fá að finna sína leið til að þekkja sín grunngildi en við sem samfélag þurfum líka að halda þeim á lofti,“ sagði hún.

Nafna hennar Logadóttir sagðist einnig í þjóðkirkjunni og að sér þætti vænt um hana. Því ætti hún ekki í neinum vandræðum með því að sinna hlutverki verndara kirkjunnar sem forseti.

„En ég mun líka sinna öllum Íslendingum því fyrir mér er trú eitthvað sem er ákaflega persónulegt og skiptir máli. Sumir eru trúaðir, aðrir eru trúlausir. Það eru ólík trúarbrögð og auðvitað trúfrelsi í landinu. Sem forseti mun ég umvefja alla þjóðina óháð því hvort að fólk trúir eða trúir ekki,“ sagði Halla Hrund.

Höllurnar tvær, sem sjást hér faðmast, voru þær einu af frambjóðendunum sex sem sögðust beinum orðum vera í þjóðkirkjunni.Vísir/Vilhelm

Sætti kirkju og samkynhneigða

Baldur sagðist alin upp á kristnu heimili þar sem hann fór með bænir á hverju kvöldi. Hann hafi átt í mjög góðu samstarfi við kirkjun etir að hafa verið mjög gagnrýninn á hana á sínum tíma vegna afstöðu hennar í garð samkynhneigðra. Biskupsstofa hafi leitað til hans um að leita sátt við Samtökin 78 og úr hafi orðið sættir.

Hrósaði Baldur kirkjunni fyrir að hafa tekið þau skref.

„Því kirkjan í dag er allt önnur stofnun en hún var fyrir fimmtán og tuttugu árum og er núna að sinna öllum sínum safnaðarmeðlimum af einstæðri nærgætni,“ sagði hann.

Jón Gnarr er kaþólskur og húmanisti, alinn upp í kristinni trú. Hann sagðist hafa verið heillaður af kristni alla æfi.

„Ég hef átt í, kannski eins og mörg vita, alls konar persónulegum útstáelsum við bæði kirkjur og við guð og ýmist verið mjög mikið inn í því eða mjög mikið út úr því en ég tel mig svona kominn á mjög góðan stað í dag,“ sagði Jón sem sá ekki fyrir sér að eiga í neinum erfiðleikum með því að fylgja ákvæði stjórnarskrár um þjóðkirkju.


Tengdar fréttir

Einhver í herberginu segi ekki satt

Halla Tómasdóttir segir augljóst að einhver þeirra sex forsetaefna sem tóku þátt í kappræðum á Stöð 2 í kvöld hafi tröll á sínum snærum sem ati aðra auri. Einhver þeirra sé því ekki að segja satt.

„Við erum ekki hlut­laus þjóð“

Frambjóðendur til forseta lýstu almennt andstöðu við vopnakaup fyrir Úkraínu í kappræðum á Stöð 2 í kvöld. Þeir lögðu áherslu á hlutleysis- og friðarstefnu en fyrrverandi forsætisráðherra benti á að Íslandi væri þó ekki hlutlaus þjóð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×