Upp­gjör, við­töl og myndir: Valur - Grinda­vík 89-79 | Vals­menn leiða í bar­áttunni um titilinn

Árni Jóhannsson skrifar
Kristófer Acox leiddi sína menn til sigurs í kvöld.
Kristófer Acox leiddi sína menn til sigurs í kvöld. Vísir / Anton Brink

Frábær byrjun á seinni hálfleik lagði grunninn að góðum sigri Valsmanna á Grindavík í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla. Staðan var jöfn í hálfleik en Valsmenn keyrðu fram úr gestunum í upphafi þess seinni. Staðan 89-79 í leiknum og 1-0 í einvíginu.

Frank Booker á leiðinni á körfunaVísir / Anton Brink

Að sjálfsögðu var mikil eftirvænting í húsinu fyrir þessum fyrsta leik í úrslitaeinvíginu og fyrri hálfleikur var góð vísbending um að liðin eru mjög jöfn. Skipst var á körfum og stoppum og eftir að Grindvíkingar náðu forskotinu þá náðu þeir ekki að slíta sig frá Valsmönnum og heimamenn náðu ekki í skottið á Grindvíkingum. Valur leiddi með einu stigi eftir fyrsta leikhluta 21-22.

Taiwo Badmus ræðst að Daniel MortensenVísir / Anton Brink

Annar leikhluti var alveg eins. Hvorugt lið náði yfirhöndinni en Grindavík var í forystu alveg þangað til um mínúta var eftir af fyrri hálfleik þegar Valsmenn náðu loksins að jafna metin í 34-34. Grindvíkingar náðu aftur forystunni, 34-37 en Justas Tamulis boraði niður þriggja stiga skoti til að jafna metin og flautan gall til að gefa til kynna að það væri kominn hálfleikur. Þetta var einungis önnur þriggja stiga karfa heimamanna í fyrri hálfleik. Það átti eftir að breytast.

Valsmenn komu inn í seinni hálfleik í steypiflugi og þegar þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður höfðu Valsmenn sett 19 stig á töfluna gegn níu og leiddu 56-46. Grindvíkingar þurftu á viðbragði að halda en það kom ekki. Því miður fyrir þá. Valsmenn komust mest 15 stigum yfir en Grindavík náði muninum niður í 11 stig þegar einn leikhluti var eftir.

Hjálmar Stefánsson í kröppum dansiVísir / Anton Brink

Grindavík reyndi eins og það gat að brúa bilið en nýtti sér ekki mý mörg tækifæri þegar Valur tapaði boltanum og loksins þegar körfur komu þá svöruðu heimamenn um hæl og héldu gestunum fjær sér þannig að þeim leið vel. Grindavík náði muninum niður í fimm stig en komust ekki lengra og heimamenn voru mjög öruggir á vítalínunni í lokin. Lokatölur 89-79 og við höldum í Smárann á mánudagskvöld þar sem Grindavík þarf að svara.

Atvik leiksins

Það kom í ljós fyrir leikinn að Kári Jónsson var leikfær og klár í slaginn. Það er mikil lyftistöng fyrir Val og þegar hann kom inn á sá maður hvernig allur andi Valsmegin í stúkunni reis og hávaðinn í leiðinni. Kári skoraði átta stig af bekknum og besta karfan frá honum var þriggja stiga karfa í upphafi fjórða leikhluta þar sem Valur Orri komst ekki nær honum án þess að brjóta og boltinn söng í netinu og kom Val í 72-58.

Kári Jónsson var mikilvægur í kvöldVísir / Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Kristinn Pálsson var stigahæstur heimamanna í dag með 18 stig en hann setti niður fjórar þriggja stiga körfur í seinni hálfleik sem lagði grunninn að þessum sigri. Hann fær nafnbótina stjarna leiksins.

Skúrkurinn kemur síðan úr röðum Grindvíkinga en það eru allir leikmenn þeirra sem heita ekki DeAndre Kane og Deidrick Basile. Þeir skoruðu 59 af 79 stigum gestanna en aðrir virkuðu ekki klárir í slaginn. Það þarf að laga það fyrir mánudaginn.

Basile stóð sig ágætlega í kvöldVísir / Anton Brink
De Assis náði sér ekki á strik í kvöld.Vísir / Anton Brink

Dómarar

Voru með allt á hreinu fannst mér. Engin stór vafaatriði svo sem og ekkert til að tala um. Þeir fá 8 í einkunn.

Kristinn Óskarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Birgir Örn HjörvarssonVísir / Anton Brink

Umgjörð og stemmning

Stemmningin var algjörlega upp á tíu í N1 höllinni. Þetta er að sjálfsögðu frábært íþróttahús og voru lætin mikil. Blaðamenn væsir ekki um neitt og körfuboltinn fékk heldur betur að njóta sín. Vill sjá fleiri í stúkunni samt í næsta leik.

Valsmenn fagnaVísir / Anton Brink

Viðtöl

Finnur Freyr: Ítreka það að þetta er bara leikur eitt

Finnur Freyr Stefánsson gaf ekki mikið fyrir tölfræði fyrir leikVísir / Anton Brink

Þjálfari Valsmanna þakkaði liðsheildinni fyrir sigurinn á Grindvíkingum í kvöld.

„Fín liðsframmistaða í heildina. Varnarlega vorum við flottir og sóknarlega náðum við að opna þá nokkrum sinnum og gerðum vel. Bæði lið eiga samt helling inni og greinilegt að stutt er síðan síðasti leikur var spilaður. Maður fann það svolítið á orkustiginu.“

Það var jafnt í hálfleik og Finnur var spurður að því hvernig honum fannst gangurinn í fyrri hálfleik.

„Við héldu haus vel þegar áhlaupin frá þeim komu en við vorum að gefa þeim auðveldar körfur. Mér fannst við gera betur í að halda kúlinu og halda áfram. Það er mikið í þessu og mikið framundan.“

Þriggja stiga nýtingin batnaði mikið í seinni háfleik.

„Þú verður að spyrja strákana út í það. Þeir hittu skotunum. Nei nei, við vorum að finna fín skot og Kristinn og Justas gerðu vel til dæmis. Við verðum að halda áfram að nýta það að við erum með mörg vopn í okkar liði og því fleiri sem við náum að virkja því betra.“

„Ég var smá pirraður yfir því að við náðum ekki að klára þriðja leikhlutann betur. Við vorum að fara illa að ráði okkar úr auðveldum færum en svona er þetta bara.“

Valur vann frákastabaráttuna 49-31 og var Finnur þakklátur fyrir það.

„Það er klárlega stór þáttur í þessu. Það var nokkrum sinnum þarna þar sem þeir fengu þrist út úr sóknarfráköstum og við erum lið sem á ekki að vera að gefa þetta frá okkur. Við eigum að halda liðunum í einu skoti per sókn. Að sama skapi erum við með íþróttamenn sem ná í fráköstinn. Ég er mjög ánægður með þetta en ítreka það að þetta er bara leikur eitt og nú eru liðin búin að læra aðeins á hvort annað. Það koma breytingar í næsta leik.“

Finnur var spurður út í þá staðreynd að liðið sem vinnur leik eitt hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn í 92% tilfella. Var verið að auka pressuna á Val?

„Engin pressa á okkur meira en á Grindavík. Bæði lið ætla að vinna og tölfræði segir ekki neitt. Einhvern tíma gerðust þessi átta prósent og við erum bara ánægðir með að verja heimavöllinn og ná smá frumkvæði. Nú þarf að láta þennan telja.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira