Það var á þriðja tímanum í fyrrinótt að strandveiðibáturinn sökk norðvestur af Garðskaga. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út en það reyndist mikið happ að skipstjóri annars strandveiðibáts á svæðinum kom manninum til bjargar. Í ljós kom að þeir höfðu þekkst í yfir fjóra áratugi.
Arnar Magnússon strandveiðisjómaður sem kom skipverja bátsins til bjargar í nótt lýsti aðstæðum í viðtali við fréttastofu í gær. Þegar hann áttaði sig á því að það sem hann sá í sjónum var ekki gámur heldur bátur. Svo sting sem hann fékk í hjartað þegar hann sá að þetta var bátur vinar hans.
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir verið að leggja fram kröfu um farbann yfir skipstjóra og stýrimanni fraktskipsins sem siglir undir fána Antígva og Barbúda. Koma verður í ljós hvort Héraðsdómur Reykjaness fellst á kröfuna.
Þær upplýsingar fengust frá hafnsögumanni í Vestmannaeyjum að Longdawn hefði lagt úr höfn um klukkan hálf þrjú í dag á leið til Rotterdam. Útgerðin hefði útvegað annan skipstjóra sem stendur í brúnni á leiðinni til Hollands.
Úlfar segir málsatvik til skoðunar en vill ekki gefa upp hvort fyrir liggi hver hafi verið í rétti þegar slysið varð. Rannsókn málsins sé tvíþætt.
„Þetta er annars vegar árekstur og það sem gerist í kjölfar á árekstri,“ segir Úlfar. Vísar hann til þess að fraktskipið hafi siglt sína leið eftir áreksturinn.