Enski boltinn

Ten Hag segir United í betri stöðu en fyrir ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir misjafnt gengi í vetur hefur Erik ten Hag fulla trú á því að hann sé á réttri leið með lið Manchester United.
Þrátt fyrir misjafnt gengi í vetur hefur Erik ten Hag fulla trú á því að hann sé á réttri leið með lið Manchester United. getty/Stu Forster

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að liðið sé í betri stöðu en fyrir ári síðan.

Á síðasta tímabili, því fyrsta undir stjórn Ten Hags, endaði United í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, komst í úrslit bikarkeppninnar og vann deildabikarinn.

United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir lokaumferðina í dag og endar þar ef liðið nær ekki betri úrslitum en Newcastle United. Ef United endar í 8. sæti verður það versti árangur liðsins frá tímabilinu 1989-90. Strákarnir hans Ten Hags eru þó komnir í bikarúrslit þar sem þeir mæta Manchester City, annað árið í röð.

Þrátt fyrir allt telur Ten Hag að United sé á betri stað en fyrir ári síðan.

„Þegar þú horfir á úrslitin er svarið nei. En við vitum ástæðurnar fyrir því svo ég myndi segja já,“ sagði Ten Hag og vísaði þar til meiðslavandræðanna sem United hefur lent í vetur.

„Við erum með fleiri hágæða leikmenn í hópnum svo að því leyti erum við í betri stöðu. Manchester United er aðlaðandi félag fyrir hvaða leikmann sem er. Við höfum þróað nokkra unga leikmenn og mjög hæfileikaríka leikmenn sem geta gert hópinn betri. Með reyndari og vanari mönnum getur þetta verið góð blanda. Þetta getur verið sterkur hópur sem getur barist á toppnum.“

United mætir Brighton á útivelli í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×