Enski boltinn

Liver­pool stað­festir komu Slot

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arne Slot mætir í Bítlaborgina þann 1. júní.
Arne Slot mætir í Bítlaborgina þann 1. júní. Getty Images/Dennis Bresser

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur staðfest að hinn hollenski Arne Slot verði næsti þjálfari liðsins. Hann skrifar undir þriggja ára samning.

Jürgen Klopp stýrði Liverpool í hinsta sinn þegar liðið lagði Úlfana 2-0 í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær, sunnudag. Það var löngu vitað að Klopp væri að stíga til hliðar og hafði koma Slot verið svo gott sem staðfest.

Hún var það svo endanlega í dag þegar Liverpool tilkynnti að hann myndi mæta til leiks þann 1. júní næstkomandi.

Hinn 45 ára gamli Slot spilaði allan sinn leikmannaferil í Hollandi. Færði hann sig yfir í þjálfun árið 2016 þegar hann tók við Cambuur. Árið 2019 tók hann við AZ Alkmaar og svo Feyenoord árið 2021. Varð félagið Hollandsmeistari undir hans stjórn í fyrra og bikarmeistari í ár.

Slot færir sig nú frá Rotterdam til Liverpool og vonast stuðningsfólk síðarnefnda liðsins að hann geti lyft félaginu í hæstu hæðir á nýjan leik.

Liverpool endaði tímabilið með 82 stig í 3. sæti, níu stigum á eftir Englandsmeisturum Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×