Fótbolti

Ráð­herrar reiðir út í leik­mann í frönsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Camara er leikmaður AS Monaco og hefur verið mikið í sviðsljósinu í Frakklandi eftir að hafa límt yfir LGBTQ merkið á búningi sínum um helgina.
Mohamed Camara er leikmaður AS Monaco og hefur verið mikið í sviðsljósinu í Frakklandi eftir að hafa límt yfir LGBTQ merkið á búningi sínum um helgina. AP/Daniel Cole

Íþróttamálaráðherra Frakklands hefur kallað eftir því að fótboltafélaginu AS Mónakó verði refsað fyrir framgöngu eins leikmanns liðsins í lokaumferðinni í frönsku deildinni um helgina.

Liðin í frönsku deildinni sýndu samstöðu með baráttunni fyrir réttindum LGBTQ fólks og gegn mismunun eins og þau hafa gert síðustu ár í lokaumferðinni. Það voru aftur á móti ekki allir til í það.

Mohamed Camara spilar sem miðjumaður hjá Mónakó. Hann límdi yfir LGBTQ merkið á búningnum sínum í leik á móti Nantes sem Mónakó vann 4-0.

Á merkinu var meðal annars strikað yfir orðið hommafælni [homophobia].

Camara gerði meira en það því hann lét heldur ekki mynda sig með öðrum leikmönnum þar sem þeir héldu á borða til stuðnings baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks.

Amélie Oudéa-Castéra, íþróttamálaráðherra Frakka, kallaði framkomu Camara óásættanlega og kallaði eftir hörðum refsingum gegn bæði félaginu og leikmanninum.

Jafnréttisráðherrann Aurore Bergé fordæmdi líka þessa hegðun á samfélagsmiðlum.

„Hommafælni er ekki skoðun. Það er glæpur,“ skrifaði hún á X, áður Twitter. „Hommafælni drepur. Mohamed Camara verður að fá harða refsingu,“ bætti Bergé við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×