Fótboltamiðillinn Bold greinir frá því að belgíska efstu deildarfélagið Gent sé við að festa kaup á íslenska landsliðsframherjanum fyrir þrjár milljónir evra en það samsvarar rúmlega 450 milljónum íslenskra króna. Ekki kemur fram hvort sænska félagið Norrköping fái ákveðna prósentu af sölunni en Lyngby keypti Andra Lucas formlega í apríl á þessu ári.
Andri Lucas hefur þó spilað með Lyngby frá upphafi leiktíðar en hann var á láni frá Norrköping fram í apríl þegar Lyngby festi kaup á honum. Hann er jafnframt ein helsta ástæða þess að allt stefni í að liðið haldi sæti sínu í deildinni en það ræðst endanlega í lokaumferðinni. Til þessa hefur hann skorað 15 mörk í deild og bikar fyrir Lyngby ásamt því að gefa tvær stoðsendingar.
Hinn 22 ára gamli Andri Lucas er í landsliðshópi Íslands fyrir vináttuleikina gegn Englandi og Hollandi í næsta mánuði. Alls hefur hann spilað 21 A-landsleik og skorað í þeim sex mörk.