Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá verðlagseftirliti Alþýðusambands Íslands.
„Verðlag í Heimkaupum hækkaði mest milli mánaða, en langmest verðhækkun þar var í snyrti- og hreingerningarvörum, rúmlega 10%. Er það til dæmis vegna 20-25% hækkunar á Elvital vörum,“ segir í tilkynningu ASÍ.
- Hvað aðrar markverðar hækkanir varðar er ýmislegt nefnt:
- Nettó: Filippo Berio ólífuolía hækkar um 21%.
- Hagkaup: Omnom súkkulaði hækkar um 17%.
- Krónan: 4stk laukur og rauðlaukur í neti hækkar um 15%.
- Bónus: Omnom súkkulaði hækkar um 10% og Milka plötur um 19%.
- Iceland: Ýmsir gosdrykkir hækka eftir afslætti í apríl.
- Krambúðin: Filippo Berio ólífuolía hækkar um rúm 20%.
- 10-11: Hvítlaukur hækkar um 35%.
- Kjörbúðin: Maarud snakk hækkar um 25% eftir afslætti í apríl.
- Extra: Hvítlaukur hækkar um 54%.
Verðlag lækkar í fjórum verslunum en hækkar í sex. Verðlag stóð í stað eða lækkaði milli mánaða í Iceland, Krambúðinni, Kjörbúðinni og Fjarðarkaupum.
Verðlag í matvöruverslunum hefur hækkað um 0,52% frá undirritun kjarasamninga, samkvæmt vörukörfu verðlagseftirlitsins. Þetta jafngildir 2,6% hækkun á ársgrundvelli. Mest hefur verðlag hækkað í Iceland (0,9%), Heimkaupum (0,8%) og Bónus (0,8%) en minnst í 10-11.
Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal.
Við verðsamanburð eru skoðaðar verðmælingar frá hverju viðmiðunartímabili fyrir sig – meðalverð í hverjum mánuði, eða meðalverð tímabilsins 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga. Þessi verð eru borin saman við nýjustu verð sem verðlagseftirlitið hefur aflað, sem eru að jafnaði frá 21. maí 2024.