Vincent Kompany stýrði Burnley upp í úrvalsdeildina síðasta vor og hafði þá gert miklar breytingar á leikmannahópi liðsins. Bætt var enn frekar í síðasta sumar þar sem fimmtán leikmenn voru fengnir til liðsins fyrir meira en hundrað milljónir punda.
Jóhann Berg segir í samtali við Val Pál Eiríksson að margt hafa mátt betur fara.
Viðskiptamódelið er hjá Burnley
„Það er fullt af mistökum sem klárlega hafa verið gerð. Auðvitað mikið af leikmönnum keyptir og mjög margir sem hafa ekki spilað í þessari deild,“ sagði Jóhann Berg.
„Það er eins og viðskiptamódelið er hjá Burnley. Það er að reyna að kaupa yngri leikmenn og reyna síðan að selja þá. Auðvitað skilar það ekki alltaf árangri sem við höfum náð síðustu ár,“ sagði Jóhann.

„Undanfarin ár hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni þá hefur þetta verið borið upp af eldri leikmönnum og flestir frá Englandi eða Írlandi sem vita hvað þetta snýst um,“ sagði Jóhann.
Mjög erfitt að læra í þessari deild
„Það er mjög erfitt að læra í þessari deild og ég held að klúbburinn og þjálfarinn hafi gert mistök. Vonandi læra þeir af því og næst þegar þeir komast upp gera þeir enn betur en í ár. Auðvitað vitum við að þetta var hreinlega ekki nógu gott,“ sagði Jóhann.
Leikmannahópur Burnley er umtalsvert fjölþjóðlegri en hann var fyrir örfáum árum þegar Burnley, undir stjórn Sean Dyche, var að mestu skipað breskum leikmönnum og Jóhann á meðal örfárra ættaða utan Bretlandseyja. En hvernig hefur verið að upplifa þessa miklu kúlturbreytingu?
„Þetta hefur verið svolítið öðruvísi. Klefinn var áður fyrr með Bretum og það var mikill húmor og einhvern veginn allt öðruvísi. Núna í dag þá eru þetta yngri leikmenn og mikið af leikmönnum sem tala frönsku, Belgar og Frakkar. Þetta er allt öðruvísi,“ sagði Jóhann.
Vantaði liðsanda
„Það vantaði smá þennan liðsanda. Það var ekki eins og þetta var áður og eitthvað sem við gömlu leikmennirnir höfum ekki þurft að glíma við áður. Það hafa allir verið á sama báti og verið í þessu saman en það var öðruvísi kúltúr núna sem við þurftum að venjast,“ sagði Jóhann.