Erlent

Segir á­rásirnar í Rafah „hræði­leg mis­tök“

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael. AP/Abir Sultan

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, segir að árásir á Rafah í gær, sem sagðar eru hafa banað að minnsta kosti 45 manns í tjaldbúðum í borginni, hafi verið „hræðileg mistök“. Þær séu til rannsóknar hjá yfirvöldum.

Árásirnar hafa harðlega gagnrýndar í dag en í morgun sögðu forsvarsmenn ísraelska hersins að talið hefði verið að enginn óbreyttur borgari ætti að falla í árásunum, sem eiga að hafa beinst að tveimur leiðtogum Hamas.

Þeir sögðu einnig að mögulegt væri að Hamas-liðar hefðu kveikt eldhafið sem fór yfir búðirnar.

Sjá einnig: Töldu að enginn ætti að deyja í árásunum

Í ávarpi sínu á ísraelska þinginu í dag sagði Netanjahú að Ísraelar litu á dauðsföllin sem harmleik en í huga leiðtoga Hamas væru þau hluti af herkænsku þeirra.

Sprengjubrot af vettvangi eru sögð gefa til kynna að sprengjurnar sem varpað var í Rafah í gær hafi verið framleiddar í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn sendu margar slíkar sprengjur til Ísrael í kjölfar árásanna þann 7. október. Fleiri sendingar hafa þó verið stöðvaðar, í það minnsta tímabundið, vegna óánægju ráðamanna í Washington DC með hernað Ísraela.

Í ávarpi í þinginu, þar sem mótmælendur fjölmenntu á áhorfendapöllum, hét Netanjahú því að halda hernaði Ísraela gegn Hamas-samtökunum áfram. Hann þvertók einnig fyrir að erindrekar hans væru ekki að reyna að semja við leiðtoga Hamas um lausn gíslanna í góðri trú.

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem stýrt ef af Hamas, segja að rúmlega 36 þúsund manns hafi fallið í átökunum. Ekki er greint á milli óbreyttra borgara og vígamanna í þessum tölum.


Tengdar fréttir

Hryllingur í Rafah eftir hefndaraðgerðir

Að minnsta kosti 35 voru drepnir í árásum Ísraela á Rafah-borg í suður-Gaza. Loftárásirnar eru hefndaraðgerðir Ísraela eftir að Hamas-samtökin gerðu fyrstu eldflaugaárásir síðan í janúar á Tel Aviv í morgun. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna mikinn hrylling.

Ísrael eigi að láta af öllum hernaðaraðgerðum í Rafah

Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði í dag að Ísraelsher ætti að láta af öllum hernaðarðageðrum í Rafah í suðurhluta Gasaborgar. Í úrskurðinum er ekki kveðið á um vopnahlé eins og óskað hafði verið eftir af Suður-Afríku sem kom með máli til dómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×