Fótbolti

Topp­bar­áttan fjar­lægur draumur eftir tap gegn meisturunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Fannar og félagar eru langt frá toppnum í ár.
Andri Fannar og félagar eru langt frá toppnum í ár. Elfsborg

Elfsborg, silfurlið sænsku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á síðustu leiktíð, mátti þola 2-1 tap gegn meisturum Malmö í kvöld. Tapið þýðir að þó aðeins séu 12 leikir búnir þá er toppbaráttan svo gott sem úr sögunni í ár.

Liðin börðust um titilinn á síðustu leiktíð en Malmö hafði betur í uppgjöri liðanna í lokaumferðinni og tryggði sér titilinn. Síðan þá hefur Íslendingalið Elfsborg selt Hákon Rafn Valdimarsson til Brentford í ensku úrvalsdeildinni og Svein Aron Guðjohnsen til Hansa Rostock í Þýskalandi.

Liðið hafði farið heldur illa af stað í ár en komst yfir snemma leik í kvöld þökk sé marki Arber Zeneli á 9. mínútu. Hugo Bolin jafnaði hins vegar metin undir lok fyrri hálfleiks og Isaac Kiese Thelin skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 57. mínútu.

Lokatölur 2-1 og meistarar Malmö áfram á toppnum. Andri Fannar Baldursson var í byrjunarliði Elfsborg en var tekinn af velli á 73. mínútu. Þá kom Eggert Aron Guðmundsson inn af bekknum í lokin og spilaði um það bil tíu mínútur eða svo.

Þetta var aðeins annar leikur Stjörnumannsins fyrrverandi en Eggert Aron meiddist illa skömmu eftir vistaskiptin til Svíþjóðar. Daníel Tristan Guðjohnsen lék ekki með toppliði Malmö vegna meiðsla. Liðið er með 31 stig að loknum 12 umferðum a´meðan Elfsborg er með 16 stig í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×