Innlent

Virknin mjög svipuð í alla nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Áttunda gosið á Reykjanesskaga á síðustu árum hófst um hádegisbil í dag.
Áttunda gosið á Reykjanesskaga á síðustu árum hófst um hádegisbil í dag. Vísir/Vilhelm

Virknin í eldgosinu á Reykjanesi sem hófst í gær hefur verið mjög svipuð í alla nótt eftir að töluvert dró úr ákafanum síðdegis í gær.

Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands hefur staðið vaktina í nótt og hún segir að lélegt skyggni á gosstöðvunum hafi þó gert þeim eilítið erfitt fyrir að fylgjast með framvindunni. „En allar aðrar mælingar sýna okkur að þetta hefur verið mjög svipað í alla nótt.“ Sigríður segir að strax seinni partinn í gær hafi farið að draga úr gosóróanum. „Þá fór gosið að draga sig saman á nokkur gosop og það er ennþá virkni á einhverjum gosopum en við getum ekki séð nákvæmlega hvað þau eru mörg eins og er,“ segir Sigríður og bætir við að skjálftavirkni á svæðinu sé lítil sem engin.

Hvað varðar hraunrennslið frá gosinu segir Sigríður að hið slæma skyggni geri mönnum erfitt fyrir. „Það er eitthvað hraunrennsli til suðurs úr syðsta gosopinu sem er í gangi núna og svo er eitthvað hraunrennsli norðar á sprungunni en við vitum ekki alveg hvert það er að renna, við sjáum það ekki.“

Sigríður segir að þetta komi allt betur í ljós þegar líður á morguninn en spáin gerir ráð fyrir að það muni létta til á svæðinu með morgninum.

Mengun af völdum gossins fer eins og staðan er núna í austur, í átt að Hveragerði og Selfoss. Í nótt lagði hún yfir höfuðborgina en Sigríður segir að mengunargildi hafi verið sáralítil ef nokkur að mælast. „Það virðist ekki vera mikil gasmengun í þessu núna,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×