„Það voru fá færi, þetta var lokaður leikur. Þetta voru lið sem voru bæði tilbúin að sætta sig við jafntefli,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrum þjálfari Breiðabliks, um leik Blika og Víkings í Bestu deild karla í gær. Hann var gestur í Ísey-tilþrifunum með Rikka G.
„Svo auðvitað saknaði ég tryllingsins eftir leik, fyrir leik og inni í leiknum. Þetta var nánast bara eins og messa. Það vantaði aðeins upp á tryllinginn. Mér fannst menn faðmast aðeins of mikið eftir leik, en það er bara ég,“ segir Óskar Hrafn en mikil læti hafa einkennt leiki liðanna undanfarin ár.
Það bar minna á slíku í gærkvöld. Breiðablik geti gengið glaðara frá borði hvað frammistöðu varðar, þó að Víkingar hafi jafnað seint í leiknum.
„Ég held að Blikarnir séu ánægðari með frammistöðuna, segir Óskar Hrafn svo. Víkingarnir hefðu viljað skapa meira og opna Blikana betur. Þeir náðu ekki að skapa sér færi, ekki að koma sér í stöður. Mér fannst það blanda af því að Blikarnir gerðu vel að þvinga þá í langa boltann, og dálítið mikið um sendingafeila hjá Víkingum sem er óvanalegt að sjá,“ segir Óskar Hrafn.
Greiningu hans má sjá í spilaranum að ofan.