Fótbolti

Mjög ó­sáttur við ras­isma meðal þýsku þjóðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Joshua Kimmich er einn af reynsluboltunum i þýska fótboltanum og fær nú tækifæri til að verða Evrópumeistari á heimavelli.
 Joshua Kimmich er einn af reynsluboltunum i þýska fótboltanum og fær nú tækifæri til að verða Evrópumeistari á heimavelli. Getty/Alexander Hassenstein

Þýski landsliðsmaðurinn Joshua Kimmich er allt annað en sáttur við bæði spurninguna og svörin í nýrri skoðunakönnum meðal þýsku þjóðarinnar þar sem spurt var út í þýska fótboltalandsliðið.

Þjóðverjar eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í sumar þar sem þeir eru á heimavelli og til alls líklegir.

Sú spurning sem hneykslaði þennan öfluga miðjumann Bayern München var sú sem fékk það út að einn af hverjum fimm Þjóðverjum vilji frekar hvíta leikmenn í landsliðið heldur en leikmenn af öðrum kynþáttum.

Skoðunarkönnunin var framkvæmd meðal 1304 manna og kvenna sem voru valin af handahófi og var gerð á vegum ARD sjónvarpsstöðvarinnar.

„Samheldni, réttlæti og fjölbreytni“

ARD notar hana í tengslum við heimildarmyndina „Unity and Justice and Diversity“ eða „Samheldni, réttlæti og fjölbreytni“.

„Allir sem hafa alist upp í kringum fótboltann vita að þetta er algjör þvæla. Fótbolti er einmitt gott dæmi um það hvernig þú getur sameinað mismunandi þjóðerni, ólíka húðliti og öðruvísi trúarbrögð,“ sagði Kimmich.

Myndi sakna fullt af leikmönnum

„Okkar lið snýst um það. Ég myndi sakna fullt af leikmönnum ef þeir væru ekki hérna með okkur. Þetta er bara rasismi og á ekki heima í okkar búningsklefa,“ sagði Kimmich.

Kimmich ræddi við fjölmiðla í æfingabúðum þýska landsliðsins í Herzogenaurach. Sex blökkumenn eru 27 manna æfingahópi Þjóðverja.

Fáránleg spurning

„Þegar þú veltir því fyrir þér að við erum að fara að halda Evrópumót heima hjá okkur og þá er fáránlegt að spyrja svona spurningar. Okkar markmið er að sameina þjóðina. Þetta snýst um að ná að gera frábæra hluti saman. Okkar lið erum að reyna að fá alla að baki okkur,“ sagði Kimmich.

Þjóðverjar spila vináttulandsleiki við Úkraínu á morgun og á móti Grikklandi fjórum dögum síðar.

Þeir eru í riðli á EM með Skotlandi, Ungverjalandi og Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×