Erlent

Flokkur Mand­ela missir meiri­hluta í fyrsta skipti í þrjá­tíu ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, þarf að leita á náð stjórnarandstöðuflokka ef Afríska þjóðarráðið ætlar að halda áfram í ríkisstjórn.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, þarf að leita á náð stjórnarandstöðuflokka ef Afríska þjóðarráðið ætlar að halda áfram í ríkisstjórn. AP/Emilio Morenatti

Afríska þjóðarráðið (ANC), sem Nelson Mandela leiddi á sínum tíma, tapaði meirihluta sínum á þingi í fyrsta skipti frá lokum aðskilnaðarstefnunnar í þingkosningunum í Suður-Afríku. Flokkurinn gæti þó haldið áfram við stjórn í samsteypustjórn.

Þegar talningu eftir kosningarnar sem fóru fram á miðvikudag lauk reyndist ANC hafa fengið fjörutíu prósent atkvæða. Tapaði flokkurinn nærri tuttugu prósentum og rúmlega sjötíu þingsætum frá því í síðustu kosningum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Cyril Ramaphosa, forseti, sagði úrslitin flokki sínum erfið en virtist boða viðræður um myndun samsteypustjórnar. 

Lýðræðisbandalagið (DA) sagðist opið fyrir viðræðum við Ramaphosa en miðhægri flokkurinn er þó andsnúinn nokkrum helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal aðgerðum til þess að jafna stöðu svartra í landinu eftir aðskilnaðarstefnuna og opinberri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. ANC segir að sér verði ekki kvikað frá þeim málum.

Jacob Zuma, fyrrverandi forseti sem hrökklaðist frá völdum í skugga spillingarmála, stofnaði sinn eigin flokk fyrir kosningarnar. Sá flokkur segist tilbúinn að vinna með þjóðarráðinu en ekki á meðan Ramaphosa er leiðtogi þess. Ramaphosa tók við af Zuma sem leiðtogi ANC í hatrömmum átökum árið 2018.


Tengdar fréttir

Þingmeirihluti ANC í hættu í Suður-Afríku

Þingkosningar hófust í morgun í Suður-Afríku í skólum, félagsmiðstöðum, samkomuhúsum og stórum tjöldum á opnum svæðum. Kosningarnar eru taldar afar mikilvægar en í húfi er meirihlutastjórn ANC flokksins sem hefur verið við völd allt frá því að aðskilnaðarstefna var lögð af fyrir um 30 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×