Innlent

Hvetur bændur til að forða fé frá af­taka­veðri

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Karólína Elísabetardóttir ætlar að koma fé sínu í skjól í kvöld. Kindur hennar hafa verið úti á litlu afgirtu svæði
Karólína Elísabetardóttir ætlar að koma fé sínu í skjól í kvöld. Kindur hennar hafa verið úti á litlu afgirtu svæði Sigursteinn Bjarnason

Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, hvetur bændur í Skagabyggð til að sækja fé til fjalla, áður en væntanlegt aftakaveður brestur á.

Spáð er miklu vonskuveðri víða um land í vikunni, en appelsínugular viðvaranir verða víða í gildi í fyrramálið. Karólína hefur birt nokkra pistla á íbúasíðum Skagabyggðar þar sem hún hvetur fólk til þess að bíða með að hleypa fé sínu á fjöll. Hún segir að hún hafi séð kindur til fjalla í Norðurárdal en að flestir bændur séu ekki búnir að hleypa fénu út. Hún sjálf er með kindur úti á litlu afgirtu svæði, sem hún kemur í skjól í kvöld.

„Það er oft snjókoma í júní, en venjulega er ekki svona hvasst. Ef það er hvassviðri og snjókoma geta kindur lent á kafi í snjónum því það myndast skaflar, og það getur verið mjög hættulegt,“ segir Karólína í samtali við fréttastofu. Hún segir að allt hafi verið hvítt hjá henni í morgun, en allt sé frekar meinlaust núna. Yfirleitt séu margir bændur farnir að sleppa á þessum árstíma, en það sé ekki raunin í ár vegna veðurs. Það sama hafi verið uppi á teningnum í fyrra, þegar júnímánuður var óvenju kaldur.

Hún segist hafa séð nokkrar kindur úti í Norðurárdal, og reynt með pistlum sínum að koma í veg fyrir að fleiri bændur færu að sleppa of snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×