Innlent

Kakka­lakkar á göngum Land­spítalans Foss­vogi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kakkalakkar dreifðu sér nýlega um ganga nýrnadeildar Landspítalans á Fossvogi. Talið er að þeim hafi öllum verið komið fyrir kattarnef, deildin verður áfram undir smásjá.
Kakkalakkar dreifðu sér nýlega um ganga nýrnadeildar Landspítalans á Fossvogi. Talið er að þeim hafi öllum verið komið fyrir kattarnef, deildin verður áfram undir smásjá. Getty

Þýskættaðir kakkalakkar dreifðu sér um nýrnadeild Landspítalans fyrir nokkrum vikum, þegar erlendur ferðamaður lagðist þar inn með farangur sinn meðferðis. Spítalinn telur að búið sé að útrýma óværunni og öll starfsemi á deildinni er að komast í eðlilegt horf.

Guðmundur Þór Sigurðsson, deildarstjóri fasteigna og umhverfisþjónustu Landspítalans, segir að búið sé að ráða örlögum kakkalakkanna. Spítalinn hafi fengið meindýraeyði sem gekk í málið. Fyrst hafi þurft að greina tegundina, sem reyndist vera af þýskum stofni, svo hægt væri að velja rétta eitrið. „En við erum með deildina í smásjá, við erum að fylgjast vel með.“

Hann segir að óværan hafi komið með farangri ferðamanns sem var að koma frá Afríku. Hann minnir að einstaklingurinn hafi verið fluttur á spítalann, ásamt farangri sínum, með sjúkrabíl beint úr fluginu.

„Það er náttúrulega alltaf stórmál ef það finnast dýr inni á spítala, við erum alltaf vel vakandi þegar svona gerist,“ segir Guðmundur. „Við fylgjumst svosem alltaf vel með, en það hefur ekkert annað komið upp í vikunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×