Sport

Mbappé þakk­látur gömlu yfir­mönnunum: „Án þeirra hefði ég ekki stigið fæti á fót­bolta­völl“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mbappé og Enrique eiga í góðu sambandi þó þjálfarinn hafi oft tekið hann af velli.
Mbappé og Enrique eiga í góðu sambandi þó þjálfarinn hafi oft tekið hann af velli. Jean Catuffe/Getty Images

Kylian Mbappé segir þjálfara og yfirmann knattspyrnumála hjá PSG hafa komið sér til bjargar þegar allt stefndi í að hann myndi ekkert fá að spila á tímabilinu.

Mbappé stóð í stríði við stjórnarmenn PSG sem voru ósáttir við hann fyrir að reyna að þvinga fram sölu til Real Madrid. Mbappé neitaði að skrifa undir framlengingu á samningi og var tilbúinn að bíða á bekknum heilt tímabil til að fá félagaskiptin í gegn.

Hann sagði frá málinu á blaðamannafundi franska landsliðsins.

„Mér var greint frá því [að ég myndi ekkert spila], það var mér gert mjög skýrt, í gegnum fjölmiðla og í eigin persónu. Luis Enrique og Luis Campos björguðu mér, án þeirra hefði ég ekki stigið fæti á fótboltavöll. Það eru staðreyndir málsins, þess vegna er ég þeim eilíft þakklátur.“

Þetta er andstætt við það sem margir stuðningsmenn PSG héldu þegar Enrique setti Mbappé ítrekað á bekkinn í vetur. Þá var talið að köldu blési milli leikmannsins og þjálfarans vegna yfirvofandi félagaskipta en svo var ekki. 

Mbappé stóð samt við orð sín og framlengdi ekki samninginn við PSG. Hann gekk svo frá félagaskiptum til Real Madrid í fyrradag.

Hann yfirgefur PSG sem markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 256 mörk í 308 leikjum.


Tengdar fréttir

Mbappé um skiptin til Real: Draumur að rætast

Franski framherjinn Kylian Mbappé er genginn í raðir Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd. Í færslu á samfélagsmiðlum segir Mbappé draum vera að rætast sem og hann birti mynd sér með Cristiano Ronaldo þegar hann var yngri.

Real Madríd stað­festir komu Mbappé

Franski framherjinn Kylian Mbappé hefur skrifað undir fimm ára samning við Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd. Félagið greindi frá þessu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×