Fótbolti

Hættur og segir sam­bandið sleikja sig upp við Cour­tois

Sindri Sverrisson skrifar
Thibaut Courtois er að snúa aftur í belgíska landsliðið og Koen Casteels er ekki sáttur.
Thibaut Courtois er að snúa aftur í belgíska landsliðið og Koen Casteels er ekki sáttur. Samsett/AFP

Dramatík er í kringum belgíska landsliðið í fótbolta í aðdraganda þess að nýi þjálfarinn, Rudi Garcia, velur sinn fyrsta landsliðshóp næsta föstudag. Markvörðurinn Koen Casteels er ósáttur og segist hættur í landsliðinu vegna endurkomu Thibaut Courtois.

Casteels hefur verið aðalmarkvörður Belgíu síðustu misseri, til að mynda í lokakeppni EM síðasta sumar. Í belgíska hlaðvarpinu MidMid segist hann hættur í landsliðinu.

Courtois, sem er aðalmarkvörður Real Madrid, sleit krossband í hné haustið 2023 en lenti svo í deilum við þáverandi landsliðsþjálfara, Domenico Tedesco, og sagðist aldrei ætla að spila fyrir hann.

„Rúlla út rauða dreglinum fyrir hann“

Tedesco var rekinn í janúar og Garcia ráðinn í hans stað, og þar með er Courtois til í að snúa aftur og spila komandi leiki við Úkraínu í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.

„Fyrir það fyrsta þá finnst mér svolítið merkilegt að Courtois geti bara ákveðið sjálfur að snúa aftur í landsliðið,“ segir Casteels í hlaðvarpsþættinum.

„Knattspyrnusambandið tekur 180 gráðu snúning og rúllar út rauða dreglinum fyrir hann. Nú er hann boðinn velkominn aftur með opnum örmum þó að ekkert hafi í raun og veru breyst,“ sagði Casteels.

Telur hann að afsökunarbeiðni frá Courtois myndi breyta einhverju?

„Ég heyrði hann segja nýverið um brotthvarf Tedesco: „Þetta sannar að ég hafði rétt fyrir mér.“ Mér finnst það ekki bera mikinn vott um eftirsjá,“ sagði Casteels.

Hann vildi þó undirstrika að óánægja sín beindist ekki svo mikið gegn Courtois heldur fyrst og fremst gegn belgíska knattspyrnusambandinu.

„Þetta passar ekki við þau gildi og þann standard sem ég tel að þurfi að vera hjá öllum íþróttaliðum og íþróttasamböndum. Ég get ekki tilheyrt sambandi sem leggur blessun sína yfir svona hegðun. Þess vegna, frá og með núna, stend ég ekki lengur til boða fyrir landsliðið. Ég get ekki farið í landsliðið með hreina samvisku, þar sem fólk tekst í hendur með stórt bros og segir: „Það er allt í góðu hér.““

Casteels á að baki 20 A-landsleiki frá árinu 2013. Síðasta sumar gekk hann í raðir Al Qadsiah í Sádi-Arabíu frá Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×