Stjórnarandstöðuflokkarnir eru með skrifstofur á sömu hæð í nýja húsinu en eins og menn muna var dregið um skrifstofurými og dró Eyjólfur Ármannsson Flokki fólksins stutta stráið í þeim efnum Var hann með óheppilega yfirlýsingu í þeim efnum: „Útsýnið úr minni skrifstofu er bara hvítur veggur, ég gæti eins verið lokaður inni á Litla-Hrauni,“ sagði Eyjólfur sem vildi meina að hann væri í húsi sem væri ekki hannað fyrir sig heldur arkítektinn.
„Mér líður eins og ég sé í húsi sem ekki er hannað fyrir mig, heldur arkitektinn. Ég sé ekki að farið hafi fram nein greining á þörfum þingmanna,“ segir hann en þinmönnum er bannað vera með persónulega muni á skrifstofum sínum, séu þeir ekki í stíl við bygginguna.
Þá eru salernin í því rými sem stjórnarandstaðan heldur til í öll ókyngreind í takti við það sem menn halda að lýsi almennum og réttum vilja. Sumar þingkonurnar eru ósáttar við þetta og merkja konuklósettin með slaufum en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur einhver ónefndur hrekkjalómur stundað það að rífa þessa „leynimerkingu“ ætíð niður.
Ekki er vitað hver er með þessa hljóðlátu uppreisn en án þess að hér sé nokkuð staðhæft liggja Miðflokksmennirnir Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson óneitanlega undir grun. Þeir gefa ekki mikið fyrir þessa kynlausu hætti. Nema þingmenn Pírata vilji standa með því að kynlaus klósettin fái að standa ómerkt? Þetta er í það minnsta leyndardómur.
Fréttin hefur verið uppfærð.