Erlent

Göngu­garpur upp­ljóstrar að hæsti foss Kína er buna úr röri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á myndskeiðinu er ekki annað að sjá en að fossinn sé í raun buna úr röri.
Á myndskeiðinu er ekki annað að sjá en að fossinn sé í raun buna úr röri. Unsplash/Yang Pu

Milljónir hafa horft á myndskeið á samfélagsmiðlum í Kína þar sem göngumaður sem sýnir hvernig hæsti foss landsins er í raun og veru rörbuna. Hann klifraði upp fyrir fossinn og blasti rörið þá við honum.

„Þátturinn þar sem ég lagði erfiði á mig til að komast að Yuntai-fossinum og sá ekkert nema rör,“ er yfirskrift myndskeiðisins, þar sem notandinn Farisvov vísar til þess hvernig Friend-þættir voru titlaðir.

Í kjölfar þess að Farisvov birti myndskeiðið fór myllumerkið „Yuntai-fossa er ekkert nema pípur“ á flug á samskiptamiðlum og eins og fyrr segir hafa milljónir horft á myndskeiðið og um 70.000 gefið því uppréttan þumalfingur.

Fárið varð svo mikið í vikunni að forsvarsmenn Yuntai-garðsins, sem er á lista UNESCO yfir jarðvanga, sáu sig tilneydda til að stíga fram og greina frá því að ákvörðun hefði verið tekin um að „hjálpa“ fossinum í þurrkatíð til að valda þeim milljónum sem leggja leið sína í garðinn árlega ekki vonbrigðum.

Staðaryfirvöld sendu einnig embættismenn á staðinn og skikkuðu forsvarsmenn garðsins til að læra af mistökunum og upplýsa ferðamenn um „aðstoðina“.

Viðbrögð á samfélagsmiðlum hafa verið á ýmsa vegu; sumir skilja ákvörðunina á meðan aðrir sögðu breytinguna vanvirðing við náttúruna og gesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×