Innlent

Vinstri græn flýta lands­fundi

Jakob Bjarnar skrifar
Frá stjórnarfundi Vg. Þar hefur verið ákveðið að flýta landsfundi og halda hann 4. til 6. október.
Frá stjórnarfundi Vg. Þar hefur verið ákveðið að flýta landsfundi og halda hann 4. til 6. október. vísir/einar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur sent út bréf til félaga í Vg þar sem hann tilkynnir að búið sé að flýta landsfundi hreyfingarinnar. Hann segir Vg nú standa á tímamótum.

„Hreyfingin okkar stendur á tímamótum. Sem kunnugt er lét fyrrum formaður okkar, Katrín Jakobsdóttir, af embætti fyrr á þessu ári eftir að hafa leitt VG í 11 ár og verið varaformaður í 10 ár þar á undan. Það eitt og sér markar þáttaskil í íslenskri stjórnmálasögu enda gegndi Katrín starfi forsætisráðherra síðustu tæp sjö ár,“ segir í upphafi bréf Guðmundar Inga.

Þar er ekki orði aukið. Vinstri græn hafa mátt horfa á fallandi fylgi og mældist hreyfingin vel undir því að komast yfir þröskuldinn og ná manni yfir þing í síðustu Gallup-könnun, eða með 3,3 í fylgi.

Guðmundur Ingi mælir með því að Vinstri grænir líti inn á við og hugi að endurnýjun. Hann vill skerpa málefnaáherslur.

„Eitt aðalsmerki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er virkt lýðræði innan hreyfingarinnar og stofnana hennar. Það er mikilvægt að kjósa forystu nú þegar Katrín hefur sagt af sér embætti formanns og því hefur stjórn hreyfingarinnar ákveðið að flýta landsfundi og boða til landsfundar þann 4.-6. október nk.“

Þar verði mótuð ný stefna sem ætlað er að leiða Vinstri græn til framtíðar.

„Vinstri græn skortir ekki baráttuþrek. Ég hlakka til að taka þátt í þessari vegferð með ykkur og hitta ykkur í starfi hreyfingarinnar á næstu vikum og mánuðum.“


Tengdar fréttir

VG geti ekki gefið meiri afslátt

VG-liðar hafa gengið of langt í málamiðlunum í ríkisstjórnarsamstarfinu að mati þingmanns flokksins og hreyfingin getur ekki gefið meiri afslátt. Hún setur fyrirvara við frumvarp um afbrotavarnir sem enn á eftir að afgreiða úr nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×