Fótbolti

Telur að Eng­land geti unnið EM þrátt fyrir á­fallið gegn Ís­landi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyle Walker og Phil Foden niðurlútir.
Kyle Walker og Phil Foden niðurlútir. getty/Ryan Pierse

Þrátt fyrir tapið fyrir Íslandi í gær telur Wayne Rooney, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, að enska liðið geti unnið EM sem hefst í næstu viku.

Íslendingar gerðu sér lítið fyrir og unnu Englendinga á Wembley í gær, 0-1. Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu.

Englendingar ætluðu að kveðja stuðningsmenn sína með stæl en varð ekki kápan úr því klæðinu og máttu þess í stað þola ósigur gegn baráttuglöðu og vel skipulögðu íslensku liði.

Þótt England hafi tapað fyrir Íslandi er Rooney enn á því að liðið geti orðið Evrópumeistari.

„Algjörlega,“ sagði Rooney á Channel 4 í gær. „Eins og ég hef áður sagt er þetta mjög spennandi hópur. Þeir eru svo sannarlega með leikmennina og slagkraftinn. Ég vona bara að varnarlínan sé nógu sterk, það er eina áhyggjuefnið. Ég held við höfum nóg til þess að mæta þessum liðum af fullum krafti og ef við gerum það eigum við frábæra möguleika.“

Rooney þekkir að tapa fyrir Íslandi en hann var fyrirliði Englands í leiknum fræga í Hreiðrinu í Nice í sextán liða úrslitunum á EM 2016. Rooney kom Englendingum yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu en það dugði ekki til og Íslendingar unnu eftirminnilegan 2-1 sigur.

England er með Slóveníu, Danmörku og Serbíu í riðli á EM. Fyrsti leikur enska liðsins er gegn því serbneska eftir viku.


Tengdar fréttir

Åge: Gott fyrir strákana

Þjálfari íslenska landsliðsins gat verið ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld þegar att var kappi við England á Wembley. Leikurinn var síðasti æfingaleikurinn hjá Englandi fyrir EM 2024 og er skemmst frá því að segja að Ísland vann leikinn 1-0 eftir mark frá Jón Degi Þorsteinssyni.

Jón Dagur: „Já þetta bara gerðist?“

Jón Dagur Þorsteinsson var hetja Íslendinga á Wembley í kvöld en hann skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Íslands á Englandi. Flesta leikmenn dreymir um að upplifa tilfinninguna að skora á þessum sögufræga velli og nú er Jón Dagur búinn að krossa það af draumalistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×