Erlent

Fjórir gíslar frelsaðir á Gasa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hjartnæmir endurfundir áttu sér stað í dag á Tel Hashomer-sjúkrahúsinu í Tel Avív.
Hjartnæmir endurfundir áttu sér stað í dag á Tel Hashomer-sjúkrahúsinu í Tel Avív. Getty/Ilia Yefimovich

Fjórum gíslum hefur verið bjargað lifandi á Gasasvæðinu. Um ræðir þrjá karlmenn og eina konu sem voru tekin í gíslingu á tónlistarhátíðinni Nova þegar Hamasliðar réðust inn í Ísrael sjöunda október á síðasta ári.

Hin 25 ára Noa Argamani átti hjartnæma endurfundi með föður sínum en myndband fór í dreifingu á samfélagsmiðlum í kjölfar árásar Hamasliða af henni í haldi þeirra. Reuters greinir frá.

Hinir gíslarnir sem frelsaðir voru í Nuseirat-borg á miðlægu Gasasvæðinu heita Almog Meir Jan, Andrey Kozlov og Shlomi Ziv. Aldur þeirra er á bilinu 21 til 40 ár. Þeir voru fundnir af ísraelsku herliði á tveimur stöðum.

Farið var með þau á sjúkrahús þar sem gáð verður að heilsu þeirra.

Um 250 gíslar voru teknir þegar Hamasliðar gerðu áhlaup á ísraelska bæi við landamærin að Gasa í október. Samkvæmt ísraelskum yfirvöldum eru um 130 gíslar enn í haldi Hamas. Um fjórðungur þeirra er talinn af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×